Embættismenn í Maryland-ríki í Bandaríkjunum og höfuðborginni Washington hafa hafið málsókn gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta vegna þess að hann hafi tekið við greiðslum frá erlendum ríkisstjórnum í gegnum viðskiptaveldi sitt.
Þetta kemur fram í frétt AFP en þar segir að málsóknin verði gerð opinber í dag. Málið snúist um lagaákvæði sem banni embættismönnum að taka við gjöfum og öðrum greiðslum frá erlendum ríkisstjórnum. Hliðstætt mál var höfðað í janúar af frjálsum félagasamtökum en þetta er fyrsta skiptið sem embættismenn höfða slíkt mál.
Trump færði daglega stjórn viðskiptaveldis síns í hendur sona sinna en hefur hins vegar ekki losað sig við eignir sínar til þess að forðast hagsmunaárekstra líkt og margir telja að honum beri skylda til að gera. Haft er eftir saksóknara að málið snúist um að Trump hafi ekki aðskilið persónulega hagsmuni sína frá skyldum sínum sem forseti Bandaríkjanna.