Fimm eru særðir eftir skotárás í Bandaríkjunum og meðal þeirra er þingmaður. Þessu er greint frá á fréttavef CBS.
Árásin átti sér stað á hafnaboltaæfingu í morgun í borginni Alexandríu í Virginíuríki. Fimm voru skotnir, þar af tveir lögreglumenn og þingmaðurinn Steve Scalise var skotinn í mjöðmina.
Stephen Joseph Scalise er einn þingmanna repúblikana í Louisiana-fylki í Bandaríkjunum og situr í fulltrúadeild bandaríska þingsins. Hann er flokksvörður (e. Majority whip) fyrir Repúblikanaflokkinn.
Scalise hefur setið á þingi frá árinu 2008 og er þekktur fyrir íhaldssama afstöðu. Hann er menntaður tölvunarfræðingur frá Louisiana háskóla og starfaði áður sem kerfisfræðingur. Hann er kvæntur Jennifer Letulle og á tvö börn, Madison og Harrison Scalise.
Flokksfélagi hans, Mo Brooks, segir að Scalise hefði varla getað hreyft sig eftir að hafa verið skotinn. Hann hefði rétt svo náð að skríða eftir hafnaboltavellinum til að komast frá skotmanninum meðan árásin stóð yfir.
25 þingmenn og öldungadeildarmenn voru á hafnaboltaæfingunni, að sögn þingmannsins Jeff Flake. Flake sagði að um 50 skotum hefði verið hleypt af og að skotmaðurinn væri hvítur karlmaður með dökkt hár, líklega í á fimmtugs- eða sextugsaldri. Hann hefði verið klæddur í gallabuxur og bláan bol.
Samkvæmt heimildum CBS voru þingmenn demókrata á hafnaboltaæfingu í nokkurra kílómetra fjarlægð þegar skotárásin hófst. Þeir munu hafa heyrt hvellina, stöðvað leik og farið saman með bænir.
Lögreglan í Alexandríu hefur greint frá því að búið sé að handsama skotmanninn.
UPDATE: Suspect is in custody and not a threat. PIO will be onscene shortly to share updates.
— Alexandria Police (@AlexandriaVAPD) June 14, 2017
Rep. Steve Scalise of Louisiana, a true friend and patriot, was badly injured but will fully recover. Our thoughts and prayers are with him.
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) June 14, 2017