Kastaði barni út um glugga

Vitni segist hafa séð konu kasta barni sínu út um …
Vitni segist hafa séð konu kasta barni sínu út um glugga af 9. eða 10. hæð byggingarinnar. AFP

Íbúi í Grenfell-turninum kastaði barni sínu út um glugga af 9. eða 10. hæð byggingarinnar til að forða því frá eldsvoðanum sem þar hefur geisað í nótt. Borgari sem staddur var við bygginguna greip barnið svo á jörðu niðri. Þetta hefur PA-fréttastofan eftir sjónarvotti. Þá segist annað vitni hafa séð foreldri kasta um fimm ára gömlum dreng út um glugga af fimmtu eða sjöttu hæð.

„Fólk var byrjað að birtast í gluggunum og veifaði og kallaði af öllum krafti […] Kona í glugganum gaf vísbendingu um að hún ætlaði að kasta barninu sínu út og kallaði eftir því að einhver myndi grípa barnið,“ segir Samira Lamrani, vitnið sem PA ræddi við. „Og það var einhver sem greip það, maður hljóp til og tókst að grípa barnið,“ segir Lamrani.

Hún segir borgarana sem stóðu fyrir utan bygginguna hafa gert allt sem í þeirra valdi stæði til að hughreysta fólkið sem fast var í byggingunni og að þau hafi hringt á neyðarlínuna.

Þá segist Lamrani einnig hafa séð fullorðinn einstakling reyna að koma sér út úr byggingunni með einhvers konar heimatilbúinni fallhlíf. Eftir því sem hún leit ofar upp bygginguna, hæð fyrir hæð, kveðst hún hafa séð endalaust af fólki. Aðallega hafi hún heyrt í börnum sem öskruðu hátt með sínum skæru barnsröddum. „Það mun lifa með mér í langan tíma. Ég heyrði þau öskra fyrir lífi sínu,“ segir Lamrani.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert