Líkt og logandi kolamoli

Mikinn reyk lagði frá Grenfell-turninum í nótt og í morgun.
Mikinn reyk lagði frá Grenfell-turninum í nótt og í morgun. AFP

Eldurinn breiddist með ógnarhraða út um Grenfell-turninn í nótt og á augabragði hvarf hann nánast í eldhafið. Í fyrstu var eldurinn bundinn við eina hlið hússins en aðeins fáar mínútur liðu þar til hann hafði læst sig í margar hæðir og alla hluta byggingarinnar sem telur að því er fram kemur í Telegraph 27 hæðir. 

Byggingin var eins og logandi kolamoli að sögn sjónarvotta á örskotsstundu.

„Ég sá einn mann falla út um glugga á byggingunni. Ég sá konu halda barni sínu út um gluggann. Ég heyrði öskur, ég hrópaði á fólkið að leggjast niður og það sagðist ekki komast út úr íbúðunum, reykurinn væri svo mikill á göngunum.“

Þannig lýsir Jody Martin, vegfarandi sem kom að byggingunni er eldurinn hafði kviknað, ástandinu fyrstu mínúturnar. Hann segir að þegar slökkvilið hafi komið á vettvang hafi virst vera öngþveiti á staðnum. Engir sjáanlegir neyðarútgangar hafi verið á byggingunni og logandi brak hafi fallið allt í kring. Hann greip sjálfur öxi af einum slökkvibílnum og hljóp inn í húsið en varð frá að hverfa á annarri hæðinni þar sem reykurinn var gríðarlega þykkur. Hann segist efast um að nokkur hafi komist út af sjálfsdáðum í gegnum reykjarmökkinn. 

Celeste Thomas býr í nágrenni fjölbýlishússins. Hún segist hafa heyrt þegar sprungur fóru að myndast í veggjum þess. 

Fabio Bebber, sem einnig var í nágrenninu, segist hafa heyrt öskur á hjálp. Þau hafi orðið háværari eftir því sem eldurinn breiddist út.

Íbúar voru flestir í fastasvefni er eldurinn kom upp. Er þeir vöknuðu og varð ljóst að þeir kæmust ekki út úr íbúðum sínum  reyndu þeir að nota rúmföt og annað til að komast út um gluggana. Aðrir veifuðu vasaljósum úr gluggunum til að láta vita af sér. 

„Ég er þakinn ösku, svo slæmt er þetta,“ sagði George Clarke sem var í um 100 metra fjarlægð frá byggingunni er hann ræddi við Channel 4 í morgun. „Þetta er svo hræðilegt. Ég hef séð fólk veifa vasaljósum af efstu hæðunum. Það er ljóst að fólkið kemst ekki út.“

Annar íbúi á svæðinu segir að eldurinn hafi orðið stjórnlaus fljótt. Ekki hafi sést í fjölbýlishúsið fyrir eldi og reyk.

Talið er að um 400-600 manns hafi búið í húsinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert