Byggingaverfræðingur annast nú eftirlit og öryggi Grenfell-turnsins, 24 hæða íbúðabyggingar sem nú stendur í ljósum logum í London. Óttast hefur verið um það að byggingin kunni að hrynja en að sögn Dany Cotton, slökkviliðsstjóra í London, er ennþá öruggt fyrir slökkviliðsmenn að fara inn í bygginguna. Þeir hafi náð að komast upp að 21. hæð byggingarinnar.
Cotton upplýsir fjölmiðla reglulega um stöðu mála vegna eldsins en hún greindi frá aðkomu byggingaverkfræðingsins og stöðu öryggismála hvað varðar viðbragðsaðila í sinni nýjustu yfirlýsingu.
Hún segist þó ekki geta verið með nokkrar tilgátur um það hvað olli eldsupptökum vegna umfangsmikils eðlis eldsvoðans. Hún kveðst að svo stöddu ekki geta gefið upp fjölda látinna en hópar slökkviliðsmanna séu nú á „stöðugri leið“ upp bygginguna og eru þeir komnir allt upp á 21. hæð byggingarinnar.
Paul Woodrow hjá sjúkraflutningaþjónustu Lundúnaborgar segir að um 100 heilbrigðisstarfsmenn séu nú að störfum á vettvangi og staðfestir að 50 manns hafi verið fluttir á sjúkrahús.
Lögregluyfirvöld í London hvetja almenning til að halda sig fjærri svæðinu þar sem eldsvoðinn er og til að hafa samband við neyðarnúmer lögreglu hafi það áhyggjur af fólki sem statt er á svæðinu, frekar en að fara þangað sjálft.