Var sjálfboðaliði hjá Sanders

AFP

James Hodgkinson hóf skothríð á þingmenn vopnaður riffli þar sem þeir voru á hafnaboltaæfingu í borginni Alexandríu sem er í nágrenni við höfuðborgina Washington D.C. Fimm særðust í árásinni, þar á meðal háttsettur þingmaður og tveir lögreglumenn. 

Greint er frá á fréttavef CNN að Hodgkinson var 66 ára frá Illinois. Hann særðist í skotbardaga við lögreglu og lést af sárum sínum eftir að hafa verið handsamaður. Tilefni árásarinnar liggur ekki enn fyrir. 

Facebook-síða hans er lituð af pólitík. Í aðalmynd hefur hann skopmynd af fyrrverandi forsetaframbjóðanda demókrata, Bernie Sanders, og síðan sjálf er full af orðræðu gegn Donald Trump Bandaríkjaforseta og flokksfélögum hans. 

Bernie Sanders segir að maðurinn hefði unnið sjálfboðastarf í forsetaframboði sínu og að hann fordæmi skotárásina eins harðlega og unnt er. 

Steve Scalise þingmaður er flokksvörður (e. majority whip) Repúblíkanaflokksins sem felur í sér að smala þingmönnum flokksins og gæta að þeir víki ekki frá stefnu. Hann var skotinn í mjöðmina en er í stöðugu ástandi á sjúkrahúsinu ásamt lögreglumönnunum tveimur. 

Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seti sagði á blaðamannafundi sem hann boðaði til stuttu eftir árásina að þingmaður­inn Scalise sé illa særður en að hann muni ná full­um bata. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert