„Þegar hann hóf skothríðina var ljóst að hann var að reyna að drepa fólk. Guði sé lof að hann var ekki mjög góð skytta,“ er haft eftir Joe Barton, þingmanni Repúblikanaflokksins í fulltrúadeild Bandaríkjaþings, í frétt Reuters sem var viðstaddur þegar karlmaður hóf skothríð á hóp þingmanna flokksins í gærmorgun þar sem þeir voru að æfa hafnabolta fyrir góðgerðarleik í borginni Alexandríu í Virginíu-ríki í Bandaríkjunum. Fjórir særðust í árásinni.
Frétt mbl.is: Scalise enn í lífshættu
Meðal hinna særðu er Steve Scalise, þriðji háttsettasti þingmaður Repúblikana í fulltrúadeildinni. Árásarmaðurinn, hinn 66 ára gamli James Hodgkinson, hafði áður ítrekað farið hörðum orðum um Donald Trump Bandaríkjaforseta og fleiri Repúblikana á netinu. Hafði hann meðal annars kallað eftir útrýmingu Repúblikanaflokksins. Scalise fékk skot í aðra mjöðmina með þeim afleiðingum að hann hlaut beinbrot og líffæri sködduðust auk þess sem hann missti mikið blóð. Gekkst hann undir aðgerð en óvíst er með afdrif hans.
Fyrir utan Scalise særðist aðstoðarmaður þingmanns og fyrrverandi aðstoðarmaður þingmanns sem starfar nú fyrir þrýstihóp. Þá særðist einn lögreglumaður. Annar lögreglumaður sneri sig á ökkla. Var hann upphaflega talinn með þeim sem særðust. Hodgkinson féll að lokum í skotbardaga við lögregluna. Hann beitti riffli í árásinni og hafði hleypt af fjölmörgum skotum á þá sem viðstaddir voru hafnaboltaleikinn áður hann féll fyrir skotum lögreglunnar.
Skömmu fyrir árásina hafði Hodgkinson komið að máli við tvo þingmenn Repúblikana skammt frá hafnaboltavellinum og spurt þá hvort þeir sem væru að spila á vellinum væru Repúblikanar eða Demókratar. Þingmaðurinn Jeff Duncan sagði manninum að um Repúblikana væri að ræða. Sneri Hodgkinson sér þá við og hélt í átt að hafnaboltavellinum. Þegar þingmennirnir tveir voru komnir aftur í þinghúsið í Washington heyrðu þeir síðan af árásinni.
Hinn þingmaðurinn, Ron DeSantis, sagði Hodgkinson ekki hafa virkað mjög vinalegur en að þeim hefði ekki dottið í huga að hann væri við það að fremja slíkt ofbeldisverk. Lögreglan hefur enn sem komið er ekki viljað fullyrða að árásin hafi verið af pólitískum ástæðum en málið er í rannsókn. Hodgkinsson var mikill stuðningsmaður Bernie Sanders, öldungadeildarþingmanns Demókrata, sem sóttist eftir því að vera forsetaefni Demókrataflokksins á síðasta ári.