Jarðskjálfti af stærðinni 4 reið yfir vesturhluta Grænlands um þrjátíu kílómetrum norður af Nuugaatsiaq í gærkvöldi.
Flóð hafa orðið í kjölfar jarðskjálftans, að því er kom fram á vefsíðu DR.
„Það er ljóst að flóðin í þorpunum Illorsuit og Nuugaatsiaq urðu vegna jarðskjálfta,“ sagði lögreglan.
Brottflutningur íbúa í Nuugaatsiaq til bæjarins Uumannaq er hafinn. Þyrlur hafa verið notaðar til þess að flytja fólkið. Um 100 manns búa í Nuugaatsiaq.
Fólki sem býr í fjörðunum í kringum Uumannaq hefur verið ráðlagt að halda sig fjarri ströndinni.
Samkvæmt grænlenska fjölmiðlinum KNR hafa einhverjar fregnir borist um að fólk hafi slasast. Lislotte Bøhm hjá lögreglunni á Grænlandi vill ekki staðfesta þetta. Einnig er óljóst með tjón af völdum flóðsins.
„Það er ekki eðlilegt að við séum með svona stóra jarðskjálfta á Grænlandi,“ sagði Trine Dahl Jensen, vísindamaður sem Berlinske Tidende ræddi við.
Hún bætti við að hætta sé á eftirskjálftum og fleiri flóðbylgjum.
„Hræðilegar náttúruhamfarir í Nuugaatsiaq,“ skrifaði Lars Løkke Rasmussen, forsætisráðherra Dana á Twitter.
Frygtelig naturkatastrofe i Nuugaatsiaq. Talt med formand for Naalakkersuisut Kim Kielsen for at udtrykke sympati og blive opdateret. #dkpol
— Lars Løkke Rasmussen (@larsloekke) June 18, 2017