Borgarstjóri London, Sadiq Khan, segir að hægt hefði verið að koma í veg fyrir stórbrunann í Grenfell-háhýsinu í vesturhluta Lundúna. Hins vegar hafi margra ára vanræksla af hálfu hins opinbera átt þátt í því stórslysi sem varð á miðvikudag.
Kahn var í dag viðstaddur athöfn þar sem þeirra sem létust var minnst. Hann sagði að bruninn væri stórslys á landsvísu og þjóðin yrði að bregðast við. Þetta kemur fram á vef BBC.
Borgarfulltrúar í Kensington og Chelsea segja að embættismenn hafi unnið sleitulaust frá því að bruninn varð. Yfirvöld á svæðinu hafa verð harðlega gagnrýnd fyrir viðbrögð sín í kjölfar brunans. Margir íbúar hafa kvartað undan því að skort hafi upplýsingagjöf og stuðning.
„Fólk er reitt, ekki aðeins vegna lélegra viðbragða borgarfulltrúa og ríkisins fyrstu dagana eftir slysið, heldur vegna margra ára vanrækslu borgarráðsins,“ sagði Kahn.
„Menn hafa á tilfinningunni að borgarráðið og ríkisstjórnin skilji ekki áhyggjur þeirra og sé í raun alveg sama.
Talið er að 58 hafi látist í eldsvoðanum, sem Kahn segir að sé afleiðing „mistaka og vanrækslu stjórnmálamanna - borgarráðsins og ríkisstjórnarinnar“.
„Íbúar á svæðinu eru komnir með nóg af þreyttum tuggum stjórnmálamanna,“ bætti borgarstjórinn við.