Nýr kafli er hafinn í stríðinu í Sýrlandi. Hermenn tveggja fylkinga, uppreisnarmanna annars vegar og stjórnarhersins hins vegar, keppast nú um að ná yfirráðum í austurhluta landsins, m.a. borginni Raqqa, höfuðvígi Ríkis íslams í landinu. Uppreisnarherirnir njóta stuðnings Bandaríkjamanna sem hafa aukið við herafla sinn í landinu að undanförnu. Stjórnarher Sýrlandsforseta nýtur svo aftur stuðnings hersveita sem skipaðar eru skæruliðum frá Írak, Íran og Líbanon. Þá hafa Rússar hingað til stutt hernað Sýrlandshers í landinu.
Khalil al-Hussein flúði Raqqa fyrir átján mánuðum en nú hefur hann snúið aftur til að taka þátt í bardaganum við vígamenn Ríkis íslams sem hafa haft borgina á valdi sínu síðustu ár.
Hussein hefur slegist í hóp uppreisnarherja bandamanna, sem saman standa af Kúrdum, Armenum og fleirum og njóta stuðnings Bandaríkjamanna, á svæðinu. Her þeirra hóf áhlaup á borgina í fyrra og braut sér loks leið inn í hana fyrr í þessum mánuði. Þá kom Hussein í fyrsta sinn til heimaborgar sinnar frá því að hann flúði.
„Ég flúði Raqqa því að glæpir [Ríkis íslams] voru yfirþyrmandi; refsingarnar, drápin, fangelsin, móðganirnar,“ sagði hann við fréttamann AFP. „Ég vil komast að húsinu mínu aftur, sama hvað það kostar, jafnvel þó að ég muni deyja.“
Þegar hermennirnir komust fyrst inn í Raqqa þann 6. júní var Hussein meðal þeirra. „Ég vil frelsa borgina mína,“ segir hann. „Ég er ekki bara hérna vegna hússins míns, ég er hér til að frelsa borgarbúa.“
Raqqa er á eyðimerkursvæði og var lítt þekkt áður en að stríðið í Sýrlandi braust út árið 2011. Hún var fyrsta borgin sem uppreisnarmenn náðu á sitt vald en síðan komu vígamenn Ríkis íslams á svæðið og náðu yfirráðum árið 2014. Hryðjuverkasamtökin segja Raqqa nú höfuðborg sína í Sýrlandi.
Í borginni hafa nokkur af mestu illvirkjum vígamannanna verið framin. Opinberar aftökur eru tíðar og íbúarnir hafa verið dæmdir í fangelsi fyrir það eitt að reykja eða ganga í gallabuxum.
En íbúarnir, sem margir hverjir hafa alist þar upp, bera sterkar taugar tilRaqqa. Hussein er í þeirra hópi. Hann fer að brosa er hann talar um borgina sína. „Það er ekki til neitt fallegra enRaqqa,“ segir hann með blik í augum. „Ég á fallegar minningar um fallegu göturnar, gjafmildi íbúanna og gott samfélag.“
Íbúar Raqqa voru um 300 þúsund fyrir stríðið. Flestir þeirra eru súnní-múslimar. Um 20% íbúanna voru Kúrdar og þá voru margir af armenskum uppruna.
Herinn sem Hussein berst með hefur nú þegar náð yfirráðum í fjórum hverfum borgarinnar; tveimur í austri og tveimur í vestri. Hverfið þar sem hann bjó sjálfur er þó enn á valdi vígamannanna.
Hermennirnir eru ánægðir með árangurinn og fagna. „Við finnum mikla gleði,“ segir einn þeirra sem er í hópi þeirra uppreisnarmanna sem barist hafa við stjórnarherinn frá því stríðið braust út.
„Við munum frelsa Raqqa, og ef guð lofar þá verður orrustan ekki löng.“