Þing Japans samþykkti umdeild lög síðasta fimmtudag vegna áforma um að fremja hryðjuverk og aðra alvarlega glæpi. Lögin víkka heimildir ríkisins til að hafa eftirlit með borgurum landsins og heimila lögreglu að handtaka „mögulega“ hryðjuverkamenn.
Ríkisstjórn Japans segir lögin, sem glæpavæða ýmsan verknað ótengdan hryðjuverkum, vera nauðsynleg til að tryggja öryggi borgaranna í framtíðinni þar sem Ólympíuleikarnir verði haldnir árið 2020. Einnig segir hún lögin í samræmi við samning Sameinuðu þjóðanna gegn fjölþjóðlegri skipulagðri glæpastarfsemi.
Fjölmenn mótmæli hafa farið fram undanfarnar tvær vikur þar sem þúsundir manna hafa safnast saman fyrir utan japanska þinghúsið í Tókýó. Mótmælendur halda því fram að lögin þrengi að mannréttindum Japana á alvarlegan hátt. Mótmælin hafa staðið yfir með hléum síðan frumvarpið var lagt fyrir þingið í desember.
Eftir atkvæðagreiðsluna sagði Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, fjölmiðlum að lögin snerust um að vernda japanska borgara enda fyrirbyggðu þau hryðjuverk áður en þau gerðust. Gagnrýnendur laganna segja þau aftur á móti vera misbeitingu ríkisvalds og brot á stjórnarskrárvörðum réttindum borgara til frelsis. „Þessi lagasetning er fullkomið dæmi um hvernig ríkisstjórnin notar hryðjuverk sem afsökun fyrir stóraukinu eftirliti með almennum borgurum og aðgerðasinnum, til að hervæða landið á ný og brjóta niður andófsmenn ríkisins,“ segir Lisa Torio, íbúi í Tókýó, við fréttamiðilinn Al Jazeera.
Nýju lögin ná til 277 nýrra glæpa. Andstæðingarnir segja marga þessara glæpa ekki tengjast hryðjuverkum sem slíkum. Glæpirnir varði til að mynda brot á höfundarrétti og það að taka timbur í leyfisleysi úr skógum landsins.
Joseph Cannataci, sérstakur embættismaður Sameinuðu þjóðanna í friðhelgi einkalífs, varaði við frumvarpinu í maí. „Ef frumvarpið verður lögleitt getur það leitt til óæskilegra takmarkanna á friðhelgi einkalífsins og tjáningarfrelsi,“ sagði Cannataci. „Frumvarpið virðist leyfa beitingu laga gegn glæpum sem tengjast að engu leyti skipulagðri glæpastarfsemi og hryðjuverkum,“ segir Cannataci enn frekar, í opnu bréfi til forsætisráðherra Japan.
Bandaríski uppljóstrarinn Edward Snowden kallaði frumvarpið upphafið að stórauknu eftirliti í Japan. „Það er verið að færa í eðlilegt horf eftirlitsmenningu sem hefur áður ekki verið til staðar í Japan,“ segir Snowden.
Frumvarpið hefur verið lagt fyrir þingið nokkrum sinnum áður en fyrri útgáfur af því mættu miklum mótbyr og voru ekki samþykktar. Nýjasta útgáfa frumvarpsins, sem nú hefur verið samþykkt, fækkaði glæpum sem það nær til niður í 270 en eldri útgáfur laganna beindust að rúmlega 600 glæpum sem tengdust ekki hryðjuverkum eða skipulögðum glæpasamtökum, að því er segir í frétt á vefnum PressTV.
Lögmannafélag Japans fullyrðir að þrátt fyrir umbætur á frumvarpinu veiti lögin enn lögreglu og ríkisvaldi of mikið svigrúm til að ákvarða hvað „glæpasamtök“ séu. Almenningur gæti því orðið skotmark laganna, þar sem símhlerunum og eftirliti með samtölum á netinu verði beitt, ef lögregla telur að um „samsæri“ sé að ræða.
Japanskir fjölmiðlar hafa líkt lögunum við eldri lög Japana frá síðari heimsstyrjöld sem snerust um „að viðhalda allsherjarreglu“. Almennir borgarar voru þá handteknir fyrir mótmæli, fyrir að styðja og starfa fyrir verkalýðsfélög og beita sér gegn stríði.