Þegar helsti einræðisherra heims mætir til opinberra viðburða kemur hann á svæðið í svörtum Mercedes Benz og stígur út á rauðan dregil. En hver hefur selt Kim Jong-un, leiðtoga Norður-Kóreu, slíka lúxusbifreið þrátt fyrir alþjóðleg viðskiptabönn á ríki hans?
Ljóst er að Kim Jong-un lifir í vellystingum. Að undanförnu hefur hann m.a. keypt hvíta snekkju, dýr vín og látið útbúa glæsilegt skíðasvæði með öllu tilheyrandi.
Farið er ítarlega yfir það sem vitað er um fjármál og lúxuslíf einræðisherrans í fréttaskýringu á vef CNN. Í henni kemur fram að árið 2012 hafi hundruðum milljóna verið eytt í innflutning lúxusvarnings hvers konar til landsins.
En hvernig getur leiðtogi lands sem varaði borgara sína við því í fyrra að hungursneyð vofði yfir haft efni á að lifa við slíkan munað?
Sérfræðingar segja að kaup sem þessi séu gerð með því að nota fé úr persónulegum sjóðum Kims. Sjóðirnir eru tilkomnir vegna ólöglegra viðskipta um allan heim. Norður-Kóreumenn hafa verið sakaðir um ýmsa glæpi, s.s. að brjótast inn í tölvukerfi banka, selja vopn og eiturlyf, að falsa peningaseðla og jafnvel að standa í viðskiptum með dýr í útrýmingarhættu. Það síðastnefnda er talið raka inn seðlum, jafnvel hundruðum milljóna dollara ár hvert.
Peningarnir í þessum sjóðum, sem uppnefndir hafa verið sparibaukur Kims, eru einnig notaðir til að fjármagna kjarnorkuvopna- og eldflaugaverkefni stjórnar hans. Slík verkefni og tilraunir þeim tengdar hafa sprungið út og eflst til muna á síðustu mánuðum, þrátt fyrir alþjóðleg viðskiptabönn.
Bandaríkjamenn eru meðal þeirra sem hafa harðlega gagnrýnt þessa þróun og segja Norður-Kóreumenn þverbrjóta öll alþjóðleg lög.
Í fréttaskýringu CNN segir að nær ómögulegt sé að rekja með vissu hvaðan féð í sparibauk Kims sé komið. „Norður-Kórea mun selja hvað sem er til hvers sem er svo lengi sem viðkomandi borgar,“ sagði Anthony Ruggiero, fyrrverandi aðstoðarráðuneytisstjóri í bandaríska fjármálaráðuneytinu nýverið.
Sjóðirnir nægja til þess að leyfa hástétt landsins að njóta lífsins gæða til hins ýtrasta þrátt fyrir alþjóðleg viðskiptabönn. Bönnin hafa því aðeins áhrif á þá lægra settu, óbreytta borgara sem eru við hungurmörk.
Sérfræðingar sem CNN ræðir við í fréttaskýringu sinni segja að á meðan nóg sé af peningum fyrir Kim Jong-un og hans helstu bandamenn, bíti viðskiptabönn og þvinganir lítt. Vilji Bandaríkjamenn raunverulega fá Norður-Kóreumenn að samningaborði til að ræða tilraunir þeirra síðarnefndu með kjarnavopn og eldflaugar, verði Donald Trump Bandaríkjaforseti að komast að því hvaðan peningarnir í einkasjóðina koma og stöðva það flæði. En til langs tíma mun það ekki duga.
„Þetta er ríkisstjórn sem er mjög dugleg í því að finna nýjar, ólöglegar leiðir til að komast yfir peninga,“ segir Sheena Greitens, prófessor við háskólann í Missouri, sem rannsakað hefur fjármál Norður-Kóreu í meira en áratug.
Kim og hans stjórn eru einnig hættuleg og hafa margsinnis verið sökuð um að taka gagnrýnendur sína af lífi. Kim á ekki langt að sækja áhuga sinn á launmorðum og aftökum.
Kim Jong-il, faðir hans, hafði óbilandi áhuga á spæjaramyndum, s.s. um leyniþjónustumanninn James Bond. Svo mikill var áhuginn að hann gegnumsýrði stjórnarhætti hans. Hann reyndi til að mynda að láta drepa mann með penna, lét ræna kvikmyndastjörnu til að hleypa nýju blóði í iðnaðinn í sínu heimalandi. Þá stofnaði hann það sem kallað er Skrifstofa 39 (e. Office 39).
Bandaríska fjármálaráðuneytið hefur sagt að Skrifstofa 39 veiti stjórnvöldum í Norður-Kóreu stuðning og haldi utan um ólögleg viðskipti þeirra.
Sérfræðingar segja þetta mögulegt með því að fela peningana nánast fyrir allra augum. Hinni margvíslegu ólöglegu starfsemi sé fléttað saman við hina löglegu. Þannig hafi stjórnvöld kastað út viðskiptanetum víða um heim og náð að fela slóð sína. Þó að stjórn Baracks Obama Bandaríkjaforseta hafi reynt að kollkeyra Skrifstofu 39 með viðskiptabönnum eru margir sem telja að hún starfi enn.
Utanríkisráðherra Bandaríkjanna segir að nú verði reynt að taka málin lengra og refsa þeim sem eiga í viðskiptum við Norður-Kóreumenn og aðstoði þá þar með við að komast fram hjá viðskiptabönnunum. Rex Tillerson sagði ekki hvernig farið yrði að þessu og hverjar refsingarnar verða en þegar hefur komið fram að Bandaríkjamenn hafa hvatt ríki víða um heim til að draga úr samskiptum sínum við Norður-Kóreu í þessu skyni. Hefur sérstaklega verið beðið um það að pólitísk tengsl við landið, s.s. með sendiráðum og erindrekum af ýmsu tagi, verði endurskoðuð.
Skýringin er sú að norðurkóreskir stjórnarerindrekar hafa verið sakaðir um að nota stöðu sína og friðhelgi til að stunda glæpastarfsemi, s.s. að smygla gulli og byssum. Sameinuðu þjóðirnar benda á að í skugga sendiráða Norður-Kóreu geti þrifist skuggaleg viðskipti. Norður-Kórea er enn með sendiráð í fjörutíu ríkjum um allan heim.
Helstu bandamenn Norður-Kóreu eru önnur Asíuríki. Og þeirra mesti bandamaður hefur hingað til verið risaveldið Kína. Viðskipti milli landanna tveggja eru mikil. Um 85% af öllu því sem flutt er (löglega) til Norður-Kóreu kemur frá Kína samkvæmt tölum Sameinuðu þjóðanna. Á meðan sú trausta líflína er til staðar er ólíklegt að viðskiptabönn annarra ríkja nái almennilega að bíta á stjórnvöldum í Norður-Kóreu.
Það gæti reynst þrautin þyngri að fá Kínverja í lið með sér. Í fyrsta lagi skipta viðskiptin við Norður-Kóreu þá miklu máli efnahagslega. Þá hafa tengslin verið mikil í fleiri áratugi og rofni þau gæti skapast valdaójafnvægi í Asíu, hefur CNN eftir David Cohen, fyrrverandi aðstoðarforstjóra CIA, leyniþjónustu Bandaríkjanna.
Kínverjar óttast valdaójafnvægi á Kóreuskaga og hafa sagt að þeir muni láta stjórnast af eigin ákvörðunum í þessu máli, ekki annarra.
Hins vegar er ljóst, að því er fram kemur í nýrri skýrslu bandarísku Rannsóknarstofnunarinnar C4ADS, að viðskiptahagsmunir Kínverja eru mun minni í Norður-Kóreu en í Suður-Kóreu. Á árunum 2013-2016 voru aðeins 5.233 kínversk fyrirtæki sem annaðhvort fluttu út vörur til Norður-Kóreu eða fluttu inn vörur þaðan. 67.163 kínversk fyrirtæki áttu hins vegar í viðskiptum við Suður-Kóreu árið 2016. En þetta eru aðeins tölur yfir lögleg viðskipti.
Vandinn felst ekki síst í því að samskipti Kínverja og Bandaríkjanna hafa á tíðum verið mjög stirð. Donald Trump reynir nú að fá þá á sitt band og ræddi meðal annars málefni Norður-Kóreu við forseta Kína í apríl.
En boltinn er hjá Kínverjum að mati sérfræðinga. Ráðast þarf að rót vandans, m.a. mögulega kínverskum fyrirtækjum og bönkum sem stunda viðskipti við Norður-Kóreu þrátt fyrir viðskiptabönnin.