Donald Trump Bandaríkjaforseti sagði stuðningsmönnum sínum á samkomu í gær að landamæraveggurinn sem hann hyggst láta byggja verði hugsanlega þakinn sólarrafhlöðum. Hann sagði að þannig þyrfti Mexíkó ekki að greiða jafn stóran hlut í veggnum.
Á fréttavef Breska ríkisútvarpsins var greint frá því að á samkomu í Iowa hefði Trump sagt stuðningsmönnum sínum frá hugmynd „sem enginn hefði heyrt áður.“ Hann sagði að sólarrafhlöðurnar myndu nýtast vel til að afla orku og standa straum af kostnaði við uppbygginguna, og fullyrti að hugmyndin væri hans eigin. „Nokkuð gott ímyndunarafl, ekki satt? Flott? Mín hugmynd.“
Í hönnunartillögum var hins vegar var búið að gera ráð fyrir sólarrafhlöðum á veggnum.
Á meðan kosningaherferðinni stóð hét Trump því að byggja vegg við landamæri Mexíkó til þess að stöðva fólksflutninga til landsins og eiturlyfjasmygl. Hann fór fram á að kostnaðurinn yrði greiddur úr ríkissjóði Mexíkó en Enrique Peña Nieto forseti vísaði því á bug.
„Við erum að íhuga að byggja vegg með sólarrafhlöðum þannig að hann borgi sig. Með þessum hætti þyrfti Mexíkó að borga mun minna og það er gott, ekki satt?“ spurði Trump.