Þýskir nasistar höfðu uppi áform um að eyðileggja Panamaskurðinn á meðan á síðari heimsstyrjöldinni stóð. Þetta kemur fram í skjölum sem hafa verið gerð opinber af alríkislögreglu Chile. Samkvæmt gögnunum, sem eru frá árunum 1937-1944, tókst leyniþjónustuarmi lögreglunnar að koma í veg fyrir að áformin næðu fram að ganga með því að handtaka helstu forystumenn hópsins sem hugðist eyðileggja skurðinn.
Fram kemur í frétr breska dagblaðsins Daily Telegraph að einnig hafi tekist að leysa upp tvö njósnanet nasista í Chile. Talið er að það hefði getað breytt ýmsu ef áformin hefðu orðið að veruleika en Panamaskurðurinn var líkt og í dag mikið notaður í kaupsiglingum og einnig notuðu Bandaríkjamenn hann til þess að flytja herskip á milli Atlantshafsins og Kyrrahafsins. Langan tíma hefði getað tekið að koma skurðinum aftur í samt lag en framkvæmdir við hann tóku mörg ár. Ekki koma nánari upplýsingar fram um það hvernig áformin voru stöðvuð.
Ungt fólk af þýskum uppruna í suðurhluta Chile hlaut herþjálfun á þessum tíma og stuðningsmenn nasista í landinu sendu reglulega upplýsingar til Þýskalands um ferðir kaupskipa bandamanna samkvæmt gögnunum. Lögreglan í Chile handtók tugi manna af þýskum uppruna og lagði hald á bækur með leynikóðum, senditæki og vopn. Sömuleiðis áætlanir um að sprengja upp námur í norðurhluta landsins.
Skjölin eru gerð opinber í sömu viku og yfirvöld í Argentínu lögðu hald á mikið magn af minjum tengdum þýskum nasistum sem faldir voru á bak við bókaskáp í Buenos Aires, höfuðborg landsins. Verulegur stuðningur var að finna bæði í Chile og Argentínu við Þýskaland í síðari heimsstyrjöldinni. Eftir að stríðinu lauk með ósigri Þjóðverja flúðu margir háttsettir nasistaforingjar frá Evrópu til Suður-Ameríku til þess að komast undan réttvísinni.
Skjölin voru formlega afhent þjóðskjalasafni Chile til varðveislu og verða þar aðgengileg almenningi. Haft er eftir þingmanninum Gabriel Silber að til þessa hafi gögnin verið ríkisleyndarmál. „Kannski munum við héðan í frá kannast við þann óþægilega sannleika að því miður studdu sumir stjórnmálamenn og kaupsýslumenn í Chile nasista.“