Katarar hafna öllum kröfunum

Qatar Airways hefur fundið verulega fyrir viðskiptabanninu.
Qatar Airways hefur fundið verulega fyrir viðskiptabanninu. AFP

Utanríkisráðherra Katar hafnar öllum þeim þrettán kröfum sem fjögur ríki á Arabíuskaga hafa sett fyrir því að viðskiptabönnum á landið verði aflétt. Hann segir kröfurnar ekki raunhæfar og óframkvæmanlegar.

Löndin fjögur; Sádi-Arabía, Egyptaland, Sameinuðu arabísku furstadæmin og Barein, hafa sett ströng viðskiptabönn á Katar vegna meintra tengsla landsins við hryðjuverkastarfsemi. Katarar harðneita öllum slíkum tengslum.

Í gær settu stjórnvöld landanna fram kröfulista sem þau sögðu Katara verða að fara að vilji þeir að bönnum og þvingunum verði aflétt. Meðal krafna er að Al Jazeera-sjónvarpsstöðinni verði lokað en stöðin er rekin af stjórnvöldum í Katar. 

Þá er þess krafist að Katarar dragi úr samskiptum sínum við Írana, erkifjendur Sádi-Araba. 

Viðskiptabannið hefur þegar haft mikil áhrif, m.a. á flugfélagið Qatar Airways sem einnig er ríkisrekið. Skrifstofum félagsins í löndunum fjórum hefur verið lokað og Katörum hefur verið bannað að ferðast um flugvelli þeirra.

Matvæli og aðrar vörur hafa frá því að bönnin voru sett á fyrir um tveimur vikum í auknum mæli verið flutt inn frá Tyrklandi og Íran, helstu bandamönnum Katar. 

Stjórnvöld ríkjanna fjögurra hafa gefið Katörum frest fram í þarnæstu viku til að svara kröfugerð þeirra. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert