Breskur ferðafélagi Ottos Warmbier um Norður-Kóreu hefur sagt frá því þegar hann sá vin sinn handtekinn af öryggisvörðum í landinu. Hann sá hann aldrei eftir það.
„Ef þú vilt fara til óvenjulegra staða sem ekki margir fara til þá er það Norður-Kórea,“ segir Danny Gratton, sem deildi herbergi með Warmbier í fimm daga ferð um Norður-Kóreu í lok ársins 2015. Gratton var með Warmbier á flugvellinum er hann var handtekinn. „Við vorum þeir síðustu í gegnum öryggiseftirlitið. Það var slegið létt á öxlina á honum og tveir öryggisverðir leiddu hann í burtu.“ Hann segist hafa sagt í gríni við Warmbier að nú myndu þeir ekki sjást aftur. Warmbier hafi hlegið er hann gekk á braut í fylgd varðanna. „Þetta var kaldhæðni, við vissum ekki þá hvað myndi gerast. En þetta reyndist rétt, þetta var í síðasta skipti sem við sáum hann.“
Gratton segist hafa búist við því að handtakan myndi fresta för Warmbier í einn dag eða svo. En þegar dagarnir liðu og urðu loks að vikum þá áttuðu sig allir á því að eitthvað alvarlegt væri á seyði.
Það næsta sem Gratton sá af Warmbier var þegar hann var leiddur fram fyrir sjónvarpsmyndavélar í Norður-Kóreu til að játa á sig glæp sem hann hafði verið dæmdur í fimmtán ára fangelsi fyrir. Warmbier var sakaður um að hafa stolið veggspjaldi af hóteli sem hann dvaldi á. Gratton segist ekki vita hvort hann hafi gert það en hafi hann gert það hafi afleiðingarnar verið ótrúlegar. „Hann var svo indæll. Hann var svo ungur og var í ævintýraferð lífs síns. Og nú er lífi hans lokið. Það er erfitt að trúa því.“
Warmbier var í haldi Norður-Kóreumanna í átján mánuði. Er hann var fluttur heim til Bandaríkjanna í síðustu viku var hann í dái. Hann hafði hlotið alvarlegar heilaskemmdir. Warmbier lést í vikunni.