Sat saklaus í fangelsi í 36 ár

Floyd var rúmlega þrítugur þegar hann var handtekinn og dæmdur …
Floyd var rúmlega þrítugur þegar hann var handtekinn og dæmdur fyrir morð.

John Floyd, 67 ára gamall maður frá New Orleans í Bandaríkjunum, hefur verið látinn laus úr fangelsi eftir að hafa setið saklaus inni í 36 ár.

Floyd var dæmdur fyrir morðið á blaðamanninum William Hines sem fannst stunginn til bana í herbergi sínu í nóvember 1980. Hann var einnig sakaður um að hafa orðið viðskiptamanninum Rodney Robinson að bana, en hann fannst látinn tveimur dögum síðar á hótelherbergi í New Orleans. Hann var hins vegar aðeins dæmdur fyrir fyrra morðið. 

Mennirnir voru báðir samkynhneigðir og talið var að þeir hefðu verið stungnir til bana eftir að hafa stundað kynlíf með árásarmanninum. 

Floyd var handtekinn í janúar 1981 og játaði síðar á sig morðin. Hann hefur reynt að fá dómnum snúið við alla tíð síðan og segist hafa verið neyddur til að játa. Segir hann lögreglumenn hafa barið sig þar til hann játaði á sig morðin.

Innocence Project hefur unnið að því síðustu ár að Floyd verði látinn laus, til að mynda með því að leggja fram DNA-gögn og fingraför sem rannsakendur segja sýna fram á sakleysi Floyd.

Hann mætti fyrir dómara í gær sem ógilti dóminn yfir honum og fyrirskipaði að hann skyldi látinn laus úr fangelsi. Hann gekk frjáls út úr dómsalnum nokkrum mínútum síðar, í bol sem á stóð „justice“ eða réttlæti. 

Í samtali við blaðamenn fyrir utan dómsalinn sagði hann að bolurinn segði allt. „Ég missti aldrei trúna og vissi að einn daginn myndi þetta koma,“ sagði hann. „Það mun taka mig tíma að venjast þessu en tilfinningin er góð.“

Til að byrja með verður Floyd undir eftirliti og mun vinna á sveitabæ á meðan máli hans er áfrýjað. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert