Gleðiganga stöðvuð með gúmmíboltum

Lögregla stöðvaði gleðigönguna í Istanbúl í Tyrklandi með valdi.
Lögregla stöðvaði gleðigönguna í Istanbúl í Tyrklandi með valdi. AFP

Tyrkneskt lögreglulið notaði í dag meðal annars gúmmíbolta til að koma í veg fyrir að hinsegingangan yrði gengin í Istanbul. Gangan er gengin frá Taksim-torgi borgarinnar. Í ár hugðust borgaryfirvöld í Istanbúl hins vegar koma í veg fyrir gönguna með því að banna hana.

Í frétt AFP um málið segir að lögregla hafi skotið gúmmíboltum í 40 aðgerðasinna sem hugðust taka þátt í göngunni. Skrifstofa borgarstjóra gaf það út að gangan yrði ekki gengin í ár af öryggisástæðum, en þetta er þriðja árið í röð sem gangan er bönnuð.

AFP greinir frá því að skipuleggjendur hafi þrátt fyrir bannið haldið sínu striki og segir fréttaritari þeirra á staðnum að miklu fleiri þungvopnaðir lögregluþjónar væru á torginu þaðan sem gangan átti að fara heldur en aðgerðasinnar sem ætluðu að taka þátt í göngunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert