CNN aftur flækt í hneykslismál

CNN og Donald Trump hafa eldað grátt silfur.
CNN og Donald Trump hafa eldað grátt silfur. Mynd/Wikipedia

Banda­ríski fjöl­miðill­inn CNN á und­ir högg að sækja eft­ir að upp­tök­ur birt­ust í dag sem sýna fram­leiðanda heil­brigðis- og mat­væla­frétta tala um að frétta­flutn­ing­ur um Don­ald Trump Banda­ríkja­for­seta sé að mestu knú­inn af því að fá sem mest­an lest­ur á frétt­irn­ar.  

Um er að ræða mynd­bands­upp­tök­ur úr fal­inni mynda­vél af fram­leiðslu­stjór­an­um John Bonifield ræða við ónafn­greind­an mann. Bonifield virðist ekki vita að verið sé að taka hann upp og tal­ar tæpitungu­laust. Þessu er greint frá á frétta­vefsíðunum The Hill, The Washingt­on Times og The Washingt­on Exam­iner

„Þetta gæti verið kjaftæði. Ég meina, þetta er að mestu leyti kjaftæði eins og er. Við höf­um ekki hald­bær sönn­un­ar­gögn,“ sagði Bonifield um frétta­flutn­ing af tengsl­um og sam­skipt­um kosn­ingat­eym­is Don­alds Trumps við rúss­nesk yf­ir­völd fyr­ir kosn­ing­arn­ar. 

„Og svo held ég að for­set­inn hafi lík­lega rétt fyr­ir sér þegar hann seg­ir að hann sé fórn­ar­lamb norna­veiða,“ sagði Bonifield enn frem­ur. Þegar hann var spurður hvers vegna CNN hefði fjallað svo mikið um málið svaraði hann: „Þetta snýst um lest­ur.“

Mynd­bands­upp­tök­urn­ar voru birt­ar af James O'Keefe sem hef­ur áður verið gagn­rýnd­ur fyr­ir að klippa mynd­bönd­in þannig að fólk líti verr út en ella. Hann seg­ir að upp­tök­urn­ar séu frá Atlanta þar sem fólk á hans veg­um hafi náð að koma sér fyr­ir inn­an raða CNN. 

CNN gaf út yf­ir­lýs­ingu vegna máls­ins og sagðist standa með Bonifield. „CNN stend­ur með John Bonifield. Fjöl­breytni skoðana er það sem ger­ir CNN að sterku fyr­ir­tæki, við fögn­um því,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni. 

Þá hef­ur Don­ald Trump blandað sér í málið. Á Twitter seg­ist hann bú­ast við breyt­ing­um á stjórn­endat­eymi CNN eft­ir að fyr­ir­tækið var gómað við að „þvinga fram falsaðar Rúss­lands­frétt­ir.“

Greint var frá því á mbl.is í morg­un að þrír blaðamenn CNN, þar á meðal rit­stjóri nýrr­ar rann­sókn­ar­deild­ar, hefðu sagt upp störf­um eft­ir að grein tengd Rússlandi var aft­ur­kölluð. Um var að ræða grein sem CNN hafði birt á vef sín­um um ná­inn banda­mann Don­ald Trump for­seta. CNN neydd­ist til þess að draga grein­ina til baka og biðjast af­sök­un­ar. 

Að neðan má sjá mynd­bands­upp­tök­urn­ar. 

mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Erlent »

Fleira áhugavert