Ítölsk stjórnvöld hafa hótað því að stöðva öll erlend skip sem reyni að koma flóttafólki í hafnir. Fullyrt er að ástandið sé orðið ósjálfbært og að önnur Evrópulönd líti undan í stað þess að takast á við vandann.
Meira en 73 þúsund flóttamenn hafa komist í land á Ítalíu það sem af er ári en það er 14% aukning miðað við sama tímabil á síðasta ári. Samtals er fjöldinn hálf milljón frá árinu 2014.
Fréttavefur Breska ríkisútvarpsins greinir frá því að talsmaður Ítalíu gagnvart Evrópusambandinu, Maurizio Massari, hefði sagt í bréfi til sambandsins að ástandið sé orðið ósjálfbært. Þá hefur Paolo Gentiloni forsætisráðherra sakað sambandslöndin um að „líta undan“ í stað þess að takast á við vandann.
Flóttamannastofnun Sameinuðu þjóðanna telur að um tvö þúsund manns hafi látið lífið eða horfið, flestir á leið frá ströndum Líbíu. Líbía er nokkur konar gátt að Evrópu fyrir farandfólk frá Afríku, Arabíuskaga, Egyptalandi, Sýrlandi og Bangladesh. Margir flýja stríð, fátækt og ofsóknir og lokanir á leiðum gegnum Balkanskagann hafa aukið streymi til landsins.
Ítalska strandgæslan er stórtæk í björgunaraðgerðum á hafsvæðinu en mörg skipanna sigla sem sigla undir öðrum Evrópufánum. Heimildarmaður fréttastofu Reuters sagði að hugmyndir væru uppi um að hindra erlend skip sem væru á vegum annarra en ítalskra stjórnvalda. Það er hins vegar enn óljóst hvort slíkar aðgerðir séu ólöglegar eða ekki.
Hótanir ítalskra stjórnvalda koma í kjölfar fylgistaps Demókrataflokksins í sveitarstjórnarkosningunum á Ítalíu í síðustu viku þar sem flokkurinn tapaði fylginu til Forza Italia og Northern League sem byggja báðir boðskap sinn á hertari aðgerðum í innflytjenda- og flóttamannamálum.