Ólíklegt að „kalífadæmið“ lifi árið

Al-Nuri-moskan í gömlu borginni í Mósúl er eyðilögð eftir valdatíma …
Al-Nuri-moskan í gömlu borginni í Mósúl er eyðilögð eftir valdatíma Ríkis íslam í borginni. AFP

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslam hafa tapað meira en 60% af því landsvæði sem þau höfðu á valdi sínu og 80% af tekjum sínum. Þetta kemur fram í greiningu IHS Markit. Samtökin lýstu yfir „kalífadæmi“ á stórum svæðum í Írak og Sýrlandi 29. júní 2014, sem varð til þess að bandalag var myndað undir forystu Bandaríkjamanna til að stöðva framrás þeirra.

Í janúar 2015 voru um 90.800 ferkílómetrar landsvæðis á valdi samtakanna en í júní 2017 hafði svæðið minnkað niður í 36.200 ferkílómetra samkvæmt IHS Markit. Á fyrstu sex mánuðum ársins töpuðu samtökin um 24.000 ferkílómetrum af landsvæði.

„Ris og fall Ríkis íslam hefur einkennst af hraðri útþenslu og síðan stöðugum samdrætti,“ segir Columb Strack, sérfræðingur í Mið-Austurlöndum. „Þremur árum eftir að samtökin lýstu yfir „kalífadæminu“ er ljóst að yfirráðaverkefni samtakanna hefur mistekist.“

Ríki íslam eiga undir högg að sækja í yfirlýstum höfuðborgum sínum; Raqa í Sýrlandi og Mósúl í Írak. Íraskar hersveitir greindu frá því í dag að þær hefðu tekið moskuna í Mósúl þar sem Abu Bakr al-Baghdadi, leiðtogi hryðjuverkasamtakanna, birtist opinberlega í fyrsta og eina sinn.

IHS telur ólíklegt að hið svokallaða „kalífadæmi“ Ríki íslam muni lifa árið.

Missir landsvæðisins hefur haft veruleg áhrif á tekjur samtakanna, þar sem geta þeirra til að innheimta fé vegna olíuframleiðslu og leggja á skatt og stunda eignaupptöku er takmörkuð. IHS áætlar að tekjurnar hafi dregist saman um heil 80%; úr 81 milljón dala annan ársfjórðung 2015 í 16 milljónir dala annan ársfjórðung 2017.

Eyðileggingin í Mósúl er gríðarleg.
Eyðileggingin í Mósúl er gríðarleg. AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert