Ferðabann Donald Trump Bandaríkjaforseta gegn ríkisborgurum sex ríkja þar sem meirihluti íbúa eru múslimar hefur tekið gildi. Bannið hefur í för með sér að einstaklingar sem ekki eiga „nána fjölskyldumeðlimi“ í Bandaríkjunum eða eiga viðskiptahagsmuna að gæta munu mögulega eiga erfitt með að komast inn í landið.
Lögmenn hafa fjölmennt á flugvöllum í Bandaríkjunum til að veita fólki sem kann að lenda í vandræðum ráðgjöf en enn sem komið er hefur bannið ekki valdið ringulreið líkt og þegar það tók fyrst gildi í janúar, enda nær það ekki til þeirra sem þegar hafa fengið vegabréfsáritun eða landvistarleyfi.
Hæstiréttur Bandaríkjanna úrskurðaði á mánudag að stjórnvöldum væri heimilt að framfylgja banninu, nema í þeim tilvikun þegar um væri að ræða einstaklinga sem hefðu sannarlega lögmæt tengsl við Bandaríkin.
Þetta þýðir að ríkisborgarar ríkjanna sex sem eiga nána ættingja í landinu, s.s. maka, foreldra, barn eða systkini, ættu að geta ferðast þangað.
Á síðustu stundu ákváðu stjórnvöld hins vegar að skilgreina hvað er „náinn ættingi“ og undanskildir eru ömmur og afar, frændar og frænkur, og barnabörn.
Ríkin sex sem reglurnar ná til eru Íran, Líbía, Sýrland, Sómalía, Súdan og Jemen. Þá ná þær til allra flóttamanna.
Yfirvöld á Hawaí hafa farið þess á leit við alríkisdómstól að skera úr um lögmæti skilgreiningar stjórnvalda á „náinn ættingi.“ Telja þau stjórnvöld hafa skilgreint hugtakið afar þröngt.
Mannréttindasamtökin ACLU hafa lýst því að þau muni fylgjast náið með því hvernig banninu verður framfylgt en Hæstiréttur mun taka lokaákvörðun um ferðabannið í heild þegar hann tekur til starfa á ný í október.
Til viðbótar við þá sem eiga nána ættingja í Bandaríkjunum verður þeim heimilt að ferðast til landsins sem eiga viðskiptahagsmuna að gæta eða stunda þar nám. Slík tengsl verða þó að vera vandlega skjalfest.
Þá geta þeir áfram ferðað til landsins sem eru frá ríkjunum sex en hafa einnig ríkisfang í öðru ríki, þ.e. þeir sem hafa tvöfalt ríkisfang.