Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hefur komið sjálfum sér til varnar og sagt notkun sína á samfélagsmiðlum í takt við nútímann. Forsetinn hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir ummæli sín á Twitter, sérstaklega síðustu daga þar sem hann hefur kallað tvo þáttastjórnendur m.a. heimska og sturlaða.
Á Twitter í gær skrifaði Trump að notkun hans á samfélagsmiðlum væri nútímaleg.
My use of social media is not Presidential - it’s MODERN DAY PRESIDENTIAL. Make America Great Again!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 1, 2017
Bæði demókratar og repúblikanar hafa gagnrýnt tíst forsetans en starfsfólk Hvíta hússins, og nú forsetinn sjálfur, hafa varið hvernig hann notfærir sér miðlana. Forsetinn sagði í gær að samfélagsmiðlar gerðu honum kleift að ná beinu sambandi við almenning, án aðkomu fjölmiðla sem hann hefur oft sakað um að flytja „falskar fréttir“. Þá sagði hann fólki jafnframt að muna að hann vann kosningarnar í fyrra með „viðtölum, ræðum og samfélagsmiðlum“.
The FAKE & FRAUDULENT NEWS MEDIA is working hard to convince Republicans and others I should not use social media - but remember, I won....
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 1, 2017
....the 2016 election with interviews, speeches and social media. I had to beat #FakeNews, and did. We will continue to WIN!
— Donald J. Trump (@realDonaldTrump) July 1, 2017
Forsetinn náði að koma „fölskum fréttum“ að í ræðu sinni í gærkvöldi fyrir fyrrverandi hermenn í Washington D.C. Þar lofaði hann því að Ameríka myndi „vinna að nýju“ og hlaut lófaklapp fyrir.
„Falskir miðlar eru að reyna að þagga niður í okkur en við leyfum þeim það ekki,“ sagði hann í gærkvöldi. „Falskir miðlar reyndu að stöðva okkur í að fara í Hvíta húsið. En ég er forseti og þau ekki.“