Frestur Katar framlengdur um 48 tíma

Utanríkisráðherra Katar mun ferðast til Kuwait í dag til að …
Utanríkisráðherra Katar mun ferðast til Kuwait í dag til að flytja formlegt svar ríkisins í formi bréfs. AFP

Katar hefur fengið lengri frest til þess að verða við kröfum fjögurra ríka á Arabíu-skaganum en ríkin saka Katar um að ógna stöðugleika í heimshlutanum með því að styðja við bakið á hryðjuverkasamtökum.

Ríkin fjögur; Sádi-Arabía, Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein og Egyptaland, hafa lengt frestinn um tvo sólarhringa en upprunalegi fresturinn til að samþykkja kröfur hópsins, sem eru í þrettán liðum, rann út síðasta sunnudag. Meðal krafnanna er að loka fréttastöðinni Al Jazeera. Þessu greinir BBC frá í morgun. 

Ríkin gáfu Katar tíu daga frest 23. júní til þess að verða við kröfunum. Á laugardag sagði Sheikh Mohammed bin Abdulrahman bin Jassim Al-Thani, utanríkisráðherra Katar, að ríkið hafni kröfunum, en sé tilbúið að taka þátt í samræðum undir réttum kringumstæðum. Utanríkisráðherrar ríkjanna fjögurra munu hittast á miðvikudag til að ræða ástandið.

Katar hefur kallað kröfurnar „lítilsvirðingu gagnvart alþjóðlegum lögum“.

Utanríkisráðherra Katar mun koma til Kúveit í dag og kynna formlegt svar þeirra en Kúveit hefur gegnt hlutverki sáttasemjara í deilunni.

Lögfræðingar Katar gagnrýna í yfirlýsingu sinni harkalegar aðferðir ríkjanna og kölluðu eftir alþjóðlegri fordæmingu í garð þeirra. Þeir sögðu kröfurnar minna á öfgakennda framkomu eineltisseggja, framkomu sem sögulega hefði endað í stríði.

„Heimurinn verður að sameinast strax til að sporna við að Katar sé valið sérstaklega út til að þola óréttlætanlega refsingu og niðurlægingu og til að viðhalda friði, öryggi og hagsæld í ríkinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert