Ítalía getur ekki haldið áfram að taka á móti þeim tugum þúsunda hælisleitenda og flóttamanna sem koma sjóleiðina til Evrópu. Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) varaði í dag við þessu og hvatti til þess að komið verði á fót kerfi þar sem byrðinni verði deilt. Hvetur stofnunin til þess að komið verði á fót sérstöku móttökukerfi til að vinna úr umsóknum og finna húsnæði fyrir þá hælisleitendur sem koma til Ítalíu.
„Það er óraunhæft að telja að Ítalir geti borið þá byrði að taka á móti öllum,“ sagði Vincent Cochetel, sérstakur sendifulltrúi UNHCR í Miðjarðarhafsríkjunum. „Slíkt stendur ekki undir sér. Við verðum að fá önnur lönd í lið með Ítalíu og deila ábyrgðinni.“
Tæplega 85.000 flóttamenn og hælisleitendur hafa komið sjóleiðina frá Ítalíu frá upphafi þessa árs, margir koma á lélegum bátskriflum sem smyglarar hafa sent af stað frá stríðshrjáðum ströndum Líbýu. Rúmlega 2.000 manns hið minnsta, sem lagt hafa yfir Miðjarðarhafið á þessu ári hafa farist eða er saknað. Samtök Rauða krossins á Ítalíu hafa varað við því að ástandið í troðnum móttökustöðvum landsins séu að verða tvísýnt.
Ítölsk stjórnvöld hafa reynt að þrýsta á önnur Evrópuríki að opna hafnir sínar fyrir björgunarskipum og deila þannig byrðinni. Stjórnvöld í Frakklandi hafa hafnað slíkri beiðni og sagt slíkar aðgerðir hafa öfugvirkandi áhrif. Slíkt gæti hvatt fleiri hælisleitendur til að halda yfir hafið, að því er AFP hefur eftir einum aðstoðarmanni Gerard Collomb innanríkisráðherra Frakklands.
„Jafnvel þó að fólki sé leyft að fara frá borði á Ítalíu, þá þýðir það ekki að ítölsk stjórnvöld þurfi að bera ábyrgð á umsóknum allra,“ sagði Cochetel. Hann hvatti til endurskoðunar á áætlun Evrópusambandsins í málefnum hælisleitenda frá 2015, þar sem til stóð að flytja 160.000 hælisleitendur frá Ítalíu og Grikklandi til annarra ríkja ESB. Einungis er búið að flytja 20.000 af þeim 160.000 hælisleitendum sem til stóð að flytja og ríki á borð við Ungverjaland, Pólland og Tékkland hafa neitað að taka þátt í áætluninni.