Stjórnvöld í Austurríki munu brátt senda vopnaða hermenn til að hafa eftirlit með landamærum ríkisins við Ítalíu, ef ekki fer að hægja á straumi flóttafólks norður yfir Miðjarðarhafið. Þetta segir varnarmálaráðherra Austurríkis.
„Ég býst við því að mjög fljótlega muni landamærastöðvar verða settar á fót og aðstoðar hersins óskað,“ segir ráðherrann Hans Peter Doskozil í samtali við fréttavefinn Krone.
Næstum 85 þúsund flóttamenn hafa komið sjóleiðina til Ítalíu það sem af er þessu ári, samkvæmt Flóttamannastofnun SÞ. Þá hafa fleiri en tvö þúsund manns látist eða týnst á sömu leið.