Þrír særðust í skotárás í Malmö

FREDRIK PERSSON

Þrír menn særðust í skotárás í Malmö í gærkvöldi. Að sögn sænsku lögreglunnar hafa tveir þeirra verið útskrifaðir af sjúkrahúsi en sá þriðji dvelur þar enn.

Árásin var gerð um klukkan 20 í gærkvöldi í Holma-hverfinu. Að sögn lögreglu eru mennirnir allir á þrítugsaldri og tengjast skipulagðri glæpastarfsemi, svo sem fíkniefnaviðskiptum. 

Einn þremenninganna var fyrr á árinu dæmdur fyrir að hóta hjúkrunarfræðingi á sjúkrahúsi í Lundi þegar honum var neitað um morfín á sjúkrahúsinu en skot hafði farið í gegnum lunga hans. 

Lögreglan ræddi við vitni í gærkvöldi og íbúa í hverfinu en svæðið sem árásin var gerð var girt af. Tæknideild lögreglunnar er enn að störfum á staðnum. 

Enginn hefur verið handtekinn vegna árásarinnar en vitni sáu tvo menn forða sér á reiðhjóli af vettvangi eftir árásina. 

Í skýrslu lögreglunnar um hættuleg svæði í Svíþjóð er Holma-hverfið skráð sem hættulegt. Ítrekað hefur komið til átaka í Malmö undanfarin ár en í fyrra létust 11 í skotárásum í borginni. Talið er að um 200 manns tengist skipulagðri glæpastarfsemi þar.

Frétt Sydsvenskan

Frétt Aftonbladet

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert