100 þúsund flóttamenn til Evrópu

Yfir eitt hundrað þúsund flóttamenn hafa flúið yfir Miðjarðarhafið til Evrópu það sem af er ári. Af þeim hafa 2.247 látist á flóttanum, samkvæmt upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum.

Frá 1. janúar til 3. júlí komur rúmlega 85 þúsund flóttamenn að landi á Ítalíu, tæplega 9.300 í Grikklandi, tæplega 6.500 á Spáni og yfir 270 á Kýpur samkvæmt nýjum upplýsingum frá Alþjóðlegu fólks­flutn­inga­stofn­uninni (IOM).

Þrátt fyrir að tölurnar séu háar þá eru þær ekkert í líkingu við síðasta ár. Á sama tímabili í fyrra komu 231.503 flóttamenn til Evrópu og í febrúar í fyrra voru þeir þegar orðnir 100 þúsund talsins. En á þeim tíma komu flestir frá Tyrklandi til Grikklands. Eftir að Evrópusambandið gerði samkomulag við Tyrki í mars í fyrra var komið í veg fyrir að fólk kæmist þessa leið til álfunnar.

Í ár hafa 85% þeirra sem hafa flúið til Evrópu komið til Ítalíu en flestir eru að koma frá Afríku í gegnum Líbýu. 

Á fimmtudag munu dóms- og innanríkisráðherrar ríkja ESB funda í Róm um komu flóttafólks til álfunnar.

Ítölsk stjórnvöld hafa þrýst á önnur ríki í Evrópu að opna hafnir sínar fyrir björgunarskip svo ábyrgðin deilist á fleiri. Yfirmaður IOM, William Lacy Swing, hvetur önnur ríki til þess að styðja við Ítalíu í málefnum flóttafólks.

„Móttaka flóttafólks sem hefur verið bjargað á ekki að vera aðeins málefni Ítalíu heldur allrar Evrópu,“ segir hann í tilkynningu sem birt var í dag.

Flóttamannaaðstoð Sameinuðu þjóðanna (UNHCR) hefur varað við því að Ítalía geti ekki annast alla þá flóttamenn sem koma þar að landi. Ekki sé ásættanlegt að ábyrgðin sé þeirra  heldur verði að deila þeirri ábyrgð milli ríkja Evrópu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert