Sænskur stjórnmálamaður varð fyrir kynferðislegri áreitni í boði sem haldið var í tilefni af Almedalen-vikunni, árlegri hátíð stjórnmálamanna þar í landi. Greint er frá þessu í dagblaðinu Metro í dag.
Þar kemur fram að kaupsýslumaður, sem áður var í stjórnmálum, hafi farið niður á gólf og tekið mynd undir pils konunnar í veislu sem haldin var við upphaf hátíðarinnar í Visby á sunnudag.
„Þetta var algjörlega fáránlegt. Þú lest um nauðganir á tónlistarhátíðum og flóttamenn sem eru nýlega komnir til landsins eru sakaðir um ósæmilega hegðun og þegar þú sérð farsælan kaupsýslumann hegða sér á þennan hátt þá er það algjörlega óþolandi,“ hefur Metro eftir manneskju sem lét vita af framferði mannsins.
Metro greinir frá því að konunni, sem er þekkt í stjórnmálum í Svíþjóð, hafi verið mög brugðið þegar maður sem sá til mannsins greindi henni frá því tólf tímum síðar.
„Ég er að reyna að komast í gegnum vinnuvikuna. Ég þarf að sinna verkefnum og er núna að reyna að semja ræðu,“ segir hún í samtali við Metro. „Mér líður illa yfir þessu og þetta er ömurlegt,“ bætir hún við.
Þegar hún er spurð hvort hún ætli að tilkynna málið lögreglu segist hún ekki geta rætt þetta frekar við fjölmiðla. Málið snerti sig alvarlega og hún verði að reyna að komast í gegnum vikuna. Kaupsýslumaðurinn neitar að hafa tekið myndir undir pils konunnar.
<h3>Eyddi myndinni strax</h3>„Þetta er ekki rétt. Ég tók mynd af henni aftan frá þar sem hún var að dansa. Myndin sýnir neðri hluta baks hennar og niður en hún er ekki tekin þegar ég var niðri á gólfinu. Ég fór til hennar og sýndi henni myndina. „Flottir leggir,“ sagði ég við hana og sýndi henni. Síðan greip hún um handleggina á mér þannig að það sá á mér. Ég eyddi myndinni strax,“ segir maðurinn í samtali við Metro.
Hann segir enn fremur í samtali við blaðið að hann sé algjörlega miður sín yfir því að hún telji að hann hafi áreitt hana. Það hafi aldrei verið ætlun hans. „Hún varð reið því hún vildi ræða þetta við mig en ég hafði ekki áhuga á að standa á dansgólfinu og rífast við hana,“ segir hann í viðtali við Metro og bætir við að viðbrögð hennar hafi komið honum í opna skjöldu.
„Þess vegna fór ég til öryggisvarðanna og sagði þeim hvað hefði gerst. Það er ótúrlegt að ég skuli vera sakaður um kynferðislega áreitni.“
<a href="https://www.metro.se/artikel/uppgifter-toppolitiker-sexuellt-ofredad-p%C3%A5-almedalens-invigningsfest" target="_blank">Frétt Metro í heild</a>