Lést Earhart í japönsku fangelsi?

Amelia Earhart við flugvélina sem hún hvarf í árið 1937. …
Amelia Earhart við flugvélina sem hún hvarf í árið 1937. Þessi mynd er tekin áður en hún hóf tilraun sína til að fljúga umhverfis jörðina. Ljósm. Smithsonian stofnunin/NASA

Ljósmynd sem nýlega fannst gefur til kynna að hinn þekkti bandaríski flugmaður Amelia Earhart gæti hafa látist í haldi Japana en ekki í flugslysi í Kyrrahafi eins og flestir hafa talið hingað til.

Reynist þetta rétt hefur ein stærsta ráðgáta sögunnar verið leyst.

Earhart hvarf sporlaust árið 1937 er hún var á flugi yfir Kyrrahafi. Allar götur síðan hefur fólk velt fyrir sér örlögum hennar og ýmsar kenningar komið fram. 

Í frétt um málið á vef BBC í dag segir að á mynd sem tekin var á fjórða áratug síðustu aldar sé manneskja sem gæti verið hún. Myndin er tekin á Marshall-eyjum sem voru undir yfirráðum Japana á þessum árum. 


Myndin fannst í geymslum þjóðskjalasafns Bandaríkjanna. Á henni má sjá hóp fólks standa við bryggju. Á myndinni stendur að hún hafi verið tekin á Jaluit Atoll á Marshall-eyjum, líklega af bandarískum njósnara. 

Amelia Earhart varð fræg um allan heim er hún flaug fyrst kvenna ein yfir Atlantshafið. Fimm árum eftir það frækna flug hvarf hún sporlaust. 

Í frétt BBC segir að vísbendingin sem þarna sé komin fram sé ekki sterk og gæti jafnvel valdið enn meiri ruglingi við rannsókn á hvarfi hennar. Á myndinni situr einn úr hópnum með bakið í myndavélina. Talið er að þetta geti verið Earhart. Það sem helst styður við þá kenningu er að á myndinni er einnig talinn vera Fred Noonan, sem flaug ásamt Earhart í hennar hinstu ferð. Til hægri á myndinni er svo óljós hlutur sem talið er að geti verið flugvél Earhart. 

Bandaríska sjónvarpsstöðin NBC birti myndina á vef sínum í gær en um helgina sýnir stöðin nýja heimildarmynd um Earhart. Ef markmiðið með myndbirtingunni var að draga athygli að heimildarmyndinni hefur það tekist, segir í frétt BBC. Í henni er rætt við að minnsta kosti tvo sérfræðinga sem styðja þá kenningu að Earhart sé á ljósmyndinni og hafi því verið í haldi Japana. 

Earhart hafði lagt upp í flug umhverfis jörðina er hún hvarf. Hún hafði tekið stefnuna á Howland-eyju þar sem hún ætlaði að taka eldsneyti. En þangað kom hún aldrei. Lífseigasta kenningin um örlög hennar er sú að hún hafi ekki fundið eyjuna, flugvélin orðið eldsneytislaus og í kjölfarið hafi hún hrapað og Earhart látist. Hins vegar hefur ekkert brak fundist úr vélinni, hvorki fyrr né síðar, til að styðja við þessa kenningu.

Tvær aðrar kenningar eru vinsælar. Önnur er sú að vél Earhart hafi hrapað á eða í nágrenni Marshall-eyja eða á Nikumaroro-eyjum. Þar hafi hún síðar látið lífið. 

Engar staðfestar sannanir eru fyrir veru hennar á eyjunum. Árið 1940 fannst beinagrind á Nikumaroro sem talin var vera af henni. Læknar þess tíma töldu það hins vegar útilokað og sögðu beinagrindina vera af karlmanni. Þá fannst box með snyrtivörum á fjórða áratugnum sem einhverjir vildu meina að hefði tilheyrt Earhart.

Ekkert í skjalasöfnum Japana

En nýja kenningin er allt önnur.

Út frá ljósmyndinni hafa verið dregnar þær ályktanir að Earhart hafi verið handsömuð af Japönum. Hún hafi því dáið sem stríðsfangi.

Marshall-eyjar voru á valdi Þjóðverja þar til í fyrri heimsstyrjöldinni er Japanar tóku þar völdin. Eyjarnar voru mikilvæg miðstöð hernaðar Japana, ekki síst í aðdraganda árásarinnar á Pearl Harbor árið 1941, örfáum árum eftir að Earhart hvarf. 

Í heimildarmynd NBC kemur fram að ekkert hafi fundist í skjalasöfnum Japana um að Earhart hafi verið í haldi þeirra í stríðinu. Hins vegar er ljóst að mikið af gögnum og heimildum hefur tapast í gegnum tíðina og því afsannar þessi niðurstaða ekki kenninguna.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert