Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, heimsótti Mosúl til að fagna sigri Írakshers gegn Ríki íslams. Hann hefur nú lýst því yfir að borgin sé laus úr ánauð og lýst yfir sigri gegn liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna sem kenna sig við Ríki íslams.
Stríðið um Mósúl hefur staðið yfir frá 17. október 2016 en þá hófu Íraksher og bandamenn hans baráttu við vígasveitirnar um frelsun borgarinnar. Borgin hefur síðan verið nokkurs konar höfuðborg Ríkis íslams, staðsett milli Íraks og Sýrlands. Kúrdískir Peshmerga-bardagamenn og herir súnní-múslíma og sjíta-múslíma hafa einnig tekið þátt í stríðinu, að því er segir á vef BBC.
Samkvæmt yfirlýsingu frá forsætisráðherra kemur hann til borgarinnar til að óska herafla borgarinnar og írösku þjóðinni til hamingju. Hann hitti helstu írösku herforingjana í borginni, en hefur ekki enn haldið ræðu til að formlega lýsa yfir sigri. Saad al-Hadithi, talsmaður Abadi, sagði að sigurinn yrði ekki formlega tilkynntur fyrr en síðustu örfáu vígamönnum Ríkis íslams yrði náð.
Undanfarið hefur herinn barist við seinustu örfáu íslömsku vígamennina sem eru í felum í borginni. Loftárásir og skothljóð heyrðust í borginni á sunnudag og einnig mátti sjá stóra reykstróka liðast upp í himininn. Fyrr í dag voru 30 stríðsmenn Ríkis íslams drepnir, er þeir reyndu að flýja sókn hersins með því að fleygja sér í Tígrisánna, sem skiptir borginni í tvennt.