Fundaði með rússneskum lögmanni sem sagðist hafa upplýsingar um Clinton

Donald Trump yngri.
Donald Trump yngri. Ljósmynd/Wikipedia Max Goldberg

Elsti sonur Donald Trump Bandaríkjaforseta, Donald Trump yngri, samþykkti að eiga fund með lögmanni sem tengdist rússneskum stjórnvöldum á meðan Trump var í miðri kosningabaráttu í fyrra, en Trump yngri hafði verið lofað að fá í hendur upplýsingar sem myndu skaða Hillary Clinton, forsetaframbjóðanda Demókrataflokksins.

Bandaríska dagblaðið New York Times greindi frá þessu í kvöld, en blaðið hefur þetta eftir þremur hátt settum embættismönnum í Hvíta húsinu í Washington.

Paul Manafort, sem var kosningastjóri Trumps, og Jared Kushner, tengdasonur Trumps, sátu einnig fundinn að því er New York Times segir. 

Blaðið hefur eftir Trump yngri að hann hafi fundað með rússneska lögmanninum Nataliu Veselnitskaya.

„Eftir létt spjall hélt konan því fram að hún byggi yfir upplýsingum um að einstaklingar með tengsl við Rússland hafi fjármagnað Demókrataflokkinn og stutt frú Clinton,“ segir Trump yngri í samtali við blaðið. 

„Fullyrðingar hennar voru óljósar, tvíræðar og það var ekkert vit í þeim. Engar nákvæmar eða frekari upplýsingar voru veittar eða boðnar. Það kom fljótt í ljós að hún bjó ekki yfir neinum mikilvægum upplýsingum.“

Trump, sem hefur setið um fimm mánuði í embætti, hefur margsinnis verið bendlaður við rússnesk stjórnvöld og hefur það varpað skugga á hans embættistíð. Það hefur m.a. truflað tilraunir samflokksmanna hans í Repúblikanaflokknum í aðgerðum sínum til að gera meiri háttar breytingar á heilbrigðis- og skattalöggjöf landsins. 

Stjórnvöld í Rússlandi hafa neitað því, sem bandarískar leyniþjónustustofnanir hafa haldið fram, að þau hafi gert tilraun til að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í Bandaríkjunum á síðasta ári. Þau hafa m.a. verið sökuð um hafa komist yfir tölvupósta hátt settra demókrata. Trump hefur enn fremur vísað öllum slíkum ásökunum á bug. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert