Samkvæmt lögum í Íran eru bifreiðar „opinber rými“ en konum ber skylda til þess að bera slæðu á höfðinu á almannafæri. Íranskar konur eru nú í auknum mæli að ögra yfirvöldum með því að „bera slæðuna illa“.
Einnig eru konur í auknum mæli að neita því að bera slæðu undir stýri. Þetta hefur komið af stað umræðu í landinu um hvort bifreiðar skuli teljast sem opinbert eða einkarými en konum er heimilt að klæða sig frjálslegar ef um er að ræða einkarými.
Konur hafa samkvæmt lögum þurft að bera slæðu á almannafæri síðan í byltingunni árið 1979. Það hefur reynst þrautin þyngri fyrir yfirvöld íslamska lýðveldisins að framfylgja slæðulögunum. Í höfuðborginni Teheran sjást konur nú í auknum mæli keyra um með slæðu sem hvílir á öxlunum frekar en höfðinu.
Deilur á milli kvenna og siðgæðisvarða eru algengari yfir sumartímann þegar hiti fer hækkandi. En þrátt fyrir að lögregla stöðvi konur sem hlýða ekki slæðulögunum, sekti þær eða geri jafnvel bifreið þeirra tímabundið upptæka, halda þær áfram að bjóða lögunum birginn.
Þetta hefur reitt harðlínumenn til reiði en forseti landsins, Hassan Rouhani, hefur sagt að virða beri persónuleg rými fólks og andmælir herferð gegn konum sem neita að bera slæðuna.
Fjölmiðlar í Íran forðast vanalega að gagnrýna slæðulögin en deilan um það hvað séu opinber rými og hvað sé einkarými hefur gert dagblöðum og ríkismiðlum kleift að birta greinar sem segja frá ólíkri afstöðu fólks.