„Fjölgun dauðsfalla fyrir miðju Miðjarðarhafsins og skelfilegar misþyrmingar sem þúsundir flóttamanna sæta í líbýskum varðhaldsstöðvum tengjast glögglega misheppnaðri stefnu Evrópusambandsins.“
Þetta kemur fram í nýrri skýrslu Amnesty International, A perfect storm: The failure of European policies in the Central Mediterranean.
Þar segir að með því að afsala sér bróðurpartinum af ábyrgðinni á að sinna leitar- og björgunaraðgerðum til frjálsra félagasamtaka og með auknu samstarfi við líbýsku strandgæsluna bregðist ríkisstjórnir Evrópu þeirri skyldu sinni að sporna við drukknun fólks fyrir miðju Miðjarðarhafinu og loka augunum fyrir illri meðferð, m.a. pyndingum og nauðgunum.
Ráðherrar Evrópusambandsins komu nýverið saman í Tallinn til ræða nýja tillögu sem samtökin telja að muni „gera skelfilegar aðstæður enn verri“.
„Fremur en að grípa til björgunaraðgerða og bjóða flóttafólki vernd, setja ráðherrar Evrópu skammarlaust samninga við Líbýu í forgang, í vonlausri tilraun til að koma í veg fyrir að flótta- og farandfólk nái landi á Ítalíu,“ er haft eftir John Dalhuisen, framkvæmdastjóra Evrópuskrifstofu Amnesty International, í fréttatilkynningu frá samtökunum.
Áætlun Evrópusambandsins sem innleidd var í apríl 2015, og ætlað er að styrkja leitar- og björgunaraðgerðir fyrir miðju Miðjarðarhafsins, dró verulega úr dauðsföllum á hafi úti. Þetta forgangsverkefni, sem leiddi til þess að nokkur Evrópulönd reiddu fram fleiri björgunarskip nærri landhelgi Líbýu, var hins vegar skammvinnt að því er fram kemur í skýrslunni.
„Ríkisstjórnir Evrópu einblína nú á að koma í veg fyrir starfssemi smyglara og brottför báta frá Líbýu, stefna sem leitt hefur til þess að flóttafólk leggur upp í enn hættulegri ferð og þreföldunar á dauðsföllum frá seinni helmingi ársins 2015 til dagsins í dag. Dauðsföll fóru úr 0,89% á seinni helmingi árs 2015 í 2,7% árið 2017,“ segir þar.
Þrátt fyrir þessa aukningu hafi Evrópusambandið brugðist því hlutverki sínu að senda sérstaka og fullnægjandi mannúðaraðstoð á vettvang, nærri landhelgi Líbýu. „Þess í stað leggur Evrópusambandið metnað sinn í að styrkja getu líbýsku strandgæslunnar til að vera betur í stakk búin að koma í veg fyrir brottfarir frá landinu og stöðva för flótta- og farandfólks áleiðis á sjó.“
Aðgerðir líbýsku strandgæslunnar hafa oft stefnt lífi flótta- og farandfólks í voða að því er fram kemur í skýrslunni. Þar segir að starfshættir strandgæslunnar standist ekki almenn öryggisviðmið og „leiða oft til þess að flóttafólkið fyllist skelfingu með þeim hörmulegu afleiðingum að bátum þess hvolfir.“
Þeir sem verða strandaglópar í Líbýu eiga á hættu að sæta margvíslegum mannréttindabrotum, þeirra á meðal nauðgunum, pyndingum, nauðungarvinnu eða þeir hverfa hreinlega.
Í tilkynningunni frá Amnesty segir að ef seinni hluta yfirstandandi árs muni svipa til fyrri hluta ársins muni 2017 bera með sér mesta mannsfall sögunnar á þessari hættulegustu sjóleið heims.