Sjötug japönsk kona, „svarta ekkjan“ svonefnda, hefur játað morðið á fjórða eiginmanni sínum. Réttarhöld yfir konunni standa nú yfir, en hún er grunuð um að hafa eitrað fyrir alls sex eiginmönnum sínum og unnustum með blásýru.
Konan, Chisako Kakehi, kom dómurum í opna skjöldu þegar hún játaði morðið í vikunni. „Ég var að bíða eftir réttri tímasetningu því ég vildi drepa hann af djúpu hatri,“ sagði Chisako Kakehi í samtali við Asahi-dagblaðið. Sagði hún hin morðin hafa snúist um peningamál.
Í dag sagði hún hins vegar fyrir dómi að hún myndi ekki eftir því sem hún sagði fyrr í vikunni. Er hún með heilabilun á fyrsta stigi, en hún hefur samt sem áður verið talin sakhæf. Ef hún verður fundin sek gæti hún hlotið dauðadóm. Hún virðist þó ekki kippa sér upp við það og sagði við dómara fyrr í vikunni: „Ég myndi glöð deyja ef þú gefur mér slík lyf núna.“
Kakehi hefur fengið einn milljarð jena, rúman milljarð króna, í bætur úr tryggingunum í tengslum við andlát eiginmanna og ástmanna undanfarin tíu ár.
Svo virðist sem Kakehi tengist dauða sex manna hið minnsta á síðustu tveimur áratugum. Flestum þeirra kynntist hún í gegnum hjúskaparmiðlanir en þar óskaði hún eftir eiginmanni sem væri eignamaður en ætti engin börn.
Fljótlega eftir að fjórði og síðasti eiginmaður hennar, Isao Kakehi, lést í desember 2015 var hún byrjuð að leita að nýju fórnarlambi. Samkvæmt fjölmiðlum var lýsing hennar eftirfarandi: Eldri maður sem býr einn. Ekki verra ef hann glímir við veikindi.