Trump vissi ekki af fundi sonar síns

Feðgarnir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Donald Trump Jr.
Feðgarnir Donald Trump Bandaríkjaforseti og Donald Trump Jr. AFP

Donald Trump yngri, sonur Donalds Trumps Bandaríkjaforseta, sagði föður sínum ekki frá fundi sem hann átti með rússneskum lögfræðingi í kosningabaráttunni. Hugðist lögfræðingurinn veita honum upp­lýs­ing­ar sem myndu skaða Hillary Cl­int­on, en um var að ræða tilraun Rússa til að styðja við kosningabaráttu Trumps.

Trump yngri sagði í sjónvarpsviðtali á Fox News í gærkvöldi að fundurinn hafi ekki verið merkilegur, en að hann hefði átt að gera hlutina með öðrum hætti.

Trump yngri birti í gær tölvupóstsamskipti þar sem honum var boðið að hitta lögfræðinginn, sem sagður var hafa tengingar við stjórnvöld í Kreml. Í viðtalinu sagði hann að lögfræðingurinn hafi ekki veitt honum neinar upplýsingar sem væru skaðlegar fyrir Clinton. „Þetta voru bara sóaðar 20 mínútur, sem er synd,“ sagði hann.

Frá því Trump var kosinn Bandaríkjaforseti hafa verið sögusagnir uppi um að Rússar hafi reynt að spilla fyrir Hillary Clinton. Hann hefur neitað því og rússnesk stjórnvöld sömuleiðis, en rannsókn stendur nú yfir á því hvort Rússar hafi haft áhrif á kosninguna.

Í yf­ir­lýs­ingu á sunnu­dag viður­kenndi Trump yngri að hafa haft áhuga á upp­lýs­ing­um sem myndu skaða Cl­int­on, en gaf ekki í skyn að hann vissi að lögmaður­inn hefði teng­ing­ar við stjórn­völd í Kreml. Að sögn heim­ild­ar­manna blaðsins gef­ur Gold­stone hins veg­ar í skyn í póst­in­um að rúss­nesk stjórn­völd hafi viljað koma upp­lýs­ing­un­um til Trumps.

Trump yngri sagði í sam­tali við New York Times í gær að lögmaður­inn, Na­talia Veselnit­skaya, hafi sagt hon­um að hún byggi yfir upp­lýs­ing­um um að ein­stak­ling­ar með tengsl við Rúss­land hafi fjár­magnað Demó­krata­flokk­inn og kosn­inga­bar­áttu Cl­int­on. Hún hefur neitað því að hafa haft nokkrar upplýsingar um Hillary og kveðst ekki hafa nein tengsl við Kreml.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert