Andrúmsloftið í Hvíta húsinu „frábært“

Feðgarnir Donald Trump og Donald Trump yngri.
Feðgarnir Donald Trump og Donald Trump yngri. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti segir andrúmsloftið í Hvíta húsinu frábært þrátt fyrir umfangsmikla rannsókn yfirvalda á því hvort Rússar hafi haft afskipti af forsetakosningunum. Trump kom fram í viðtali við Reuters-fréttastofuna í gær þar sem hann sagði ríkisstjórn sína „starfa fallega“.

Þetta kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Trump kom elsta syni sínum, Donald Trump yngri, einnig til varnar í viðtalinu, en greint hefur verið frá því síðustu daga að hann hafi hitt rússneskan lögfræðing í miðri kosningabaráttunni með það í hyggju að klekkja á Hillary Cl­int­on.

Rússneski lögfræðingurinn Natalia Veselnitskaya.
Rússneski lögfræðingurinn Natalia Veselnitskaya. AFP

Trump yngri hitti Nataliu Veselnitskaya sem sagðist geta veitt honum gögn sem væru skaðleg fyrir Clinton. Hann sagði í viðtali við Fox News í vikunni að fund­ur­inn hefði verið „al­gjör­lega ekk­ert mál“ en játaði að hann hefði átt að bregðast öðru­vísi við.

Yf­ir­völd í Banda­ríkj­un­um rann­saka hvort og hvernig Rúss­ar hafi haft af­skipti af for­seta­kosn­ing­un­um en frá því að Trump var kjör­inn for­seti hef­ur hann legið und­ir þung­um ásök­un­um vegna máls­ins. 

Trump segist þó ekkert hafa vitað um fund sonar síns við Veselnitskaya þar til fyrir tveimur dögum. Hann varði þó son sinn og sagði að margir í sömu sporum hefðu gert hið sama.

Trump og Pútín nái vel saman

Í öðru viðtali, við kristilegu sjónvarpsstöðina CBN í gær, sagði Trump að vel færi á með þeim Vladimir Pútín Rússlandsforseta. Forsetarnir hittust á leiðtogafundi G20-ríkjanna í Hamborg í síðustu viku.

„Fólk sagði oh, þeir ættu ekki að ná saman. En hver eru þau að segja það? Mér finnst við ná mjög, mjög vel saman.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert