Nýsjálensk kona lést á eyjunni Sint Maarten í Karabíska hafinu eftir að hviða frá öflugum flugvélarhreyfli feykti henni um koll. Flugvöllurinn er frægur fyrir það að baðstrandargestir geta horft á vélarnar lenda á flugvellinum sem stendur skammt frá fjöruborðinu. Konan hafði, eins og svo margir ferðamenn gera, staðið við girðingu hjá flugbrautinni er slysið átti sér stað.
Í frétt BBC um málið segir að konan hafi verið 57 ára. Krafturinn frá hreyflinum hafi orðið til þess að hún féll aftur fyrir sig og hlaut banvæna áverka. Hún var flutt á sjúkrahús þar sem hún lést skömmu síðar.
Eyjan Sint Maarten tilheyrir Hollandi frá fornu fari. Hún er vinsæll viðkomustaður ferðamanna og eitt af því sem flestir þeirra gera í heimsókn sinni er að fylgjast með flugvélunum lenda í návígi. Vélarnar fljúga mjög lágt yfir strandlengjunni áður en þær setja hjólin niður á flugbrautinni.
Mörg viðvörunarskilti eru á svæðinu þar sem ferðamenn eru varaðir við því að standa nálægt girðingunum við flugbrautina. Eru þeir sérstaklega varaðir við kraftinum í flugvélahreyflunum.
Hins vegar er ljóst að margir ferðamenn láta þessi varnaðarorð sem vind um eyru þjóta og vinsælt er að birta myndir og myndskeið á samfélagsmiðlum af lendingum flugvéla úr miklu návígi.
Í frétt BBC kemur fram að flugvélin sem var að lenda hafi verið farþega þota af gerðinni Boeing 737. Lögreglan á Sint Maarten segist daglega fara á vettvang til að vara ferðamenn við því að standa við girðingarnar.