Nóbelsverðlaunahafinn og aðgerðasinninn Liu Xiaobo er látinn, að sögn kínverskra yfirvalda. Hann var 61 árs. Liu var fluttur á sjúkrahús fyrir um mánuði en þá hafði hann setið í fangelsi um nokkurt skeið.
Banamein hans var lungnakrabbamein.
Liu var háskólaprófessor og aðgerðasinni en var álitinn glæpamaður af kínverskum stjórnvöldum og afplánaði 11 ára fangelsisdóm fyrir „niðurrifsstarfsemi“.
Hann hafði áður ítrekað verið látinn sæta fangavist um ævina og sætti sömuleiðis ýmsum takmörkunum á frelsi sínu þegar hann gat yfirhöfuð um frjálst höfuð strokið. Þá var eiginkona hans, Liu Xia, hneppt í stofufangelsi.
Síðustu vikur skoraði fjöldi þjóðarleiðtoga á kínversk stjórnvöld að leyfa Liu að sækja líknandi meðferð utan landsteinanna en tveir læknar, frá Þýskalandi og Bandaríkjunum, sem heimsóttu hann fyrir skömmu sögðu hann þyldi ferðalagið.
Því voru kínverskir kollegar þeirra ósammála.
Liu var þekktur meðal aðgerðasinna utan meginlands Kína en minna kunnur heima fyrir þar sem fréttir um hann voru ritskoðaðar af yfirvöldum.
Hann tók þátt í mótmælunum á Torgi hins himneska friðar árið 1989 og er sagður hafa bjargað lífi hundruða mótmælenda þegar hann, og aðrir aðgerðasinnar, sömdu um að þeir fengju að yfirgefa mótmælin örugglega.
Liu var í framhaldinu tekinn höndum en sleppt 1991. Hann var dæmdur til þriggja ára þrælkunarvistar í vinnubúðum í norðausturhluta Kína, þar sem hann gekk að eiga ljóðskáldið Liu Xia árið 1996.