Veggurinn verði þakinn sólarsellum

Donald Trump Bandaríkjaforseti.
Donald Trump Bandaríkjaforseti. AFP

Donald Trump Bandaríkjaforseti vill þekja „vegginn“ á landamærum Bandaríkjanna og Mexíkó sólarsellum. Þetta ítrekaði hann við blaðamenn um borð í Air Force One-forsetaflugvélinni á leið til Parísar í dag þar sem hann mun vera viðstaddur hátíðarhöld á Bastilludaginn.

„Það eru stór fyrirtæki að skoða þetta. Pælið í því, það er enginn staður betri fyrir sólarsellur en landamæri Mexíkó,“ sagði Trump og bætti við að það myndi líka líta vel út.

Þá sagði Trump að fólk þyrfti að geta séð í gegnum vegginn, að minnsta kosti að einhverju leyti. „Þannig þetta gæti verið stálveggur með götum, en þú verður að hafa göt til að sjá hvað er í gangi hinum megin.“

„Þegar þeir henda stórum pokum af fíkniefnum yfir og fólk er hinum megin við vegginn gæti það fengið 30 kílóa þungan poka í hausinn. Eins klikkað og það hljómar þá verður að sjást í gegn.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert