Hugtakið „náinn ættingi“ er skilgreint of þröngt í ferðabanni Donalds Trumps Bandaríkjaforseta. Afar, ömmur, barnabörn og fleiri ættingjar ættu líka að falla undir hugtakið, ólíkt því sem ríkisstjórn Trump hafði gefið út. Þessu hefur dómari á Havaí komist að. BBC greinir frá.
Frétt mbl.is: Ferðabann Trump tekur gildi
Ferðabannið beinist gegn ríkisborgurum sex ríkja þar sem meirihluti íbúa er múslimar. Bannið hefur í för með sér að einstaklingar sem ekki eiga „nána fjölskyldumeðlimi“ í Bandaríkjunum eða eiga viðskiptahagsmuna að gæta geta átt erfitt með að komast inn í landið.
Dómarinn Derrick Watson sagði í dómi sínum í gær að ríkisstjórn Trumps hefði túlkað dóm Hæstaréttar Bandaríkjanna of þröngt, en rétturinn sagði í síðasta mánuði að stjórnvöldum væri heimilt að framfylgja banninu, nema í þeim tilvikum þegar um væri að ræða einstaklinga sem hefðu sannarlega lögmæt tengsl við Bandaríkin.
Stjórnvöld í Bandaríkjunum ákváðu hins vegar að skilgreina hugtakið „náinn ættingi“ og undanskilja ömmur og afa, frændur og frænkur og barnabörn. Watson sagði þetta ekki vera í samræmi við dóm æðsta réttarins og því mætti ekki banna þessum ættingjum að koma inn í landið vegna bannsins.
Fordæmdi hann skilgreiningu ríkisstjórnarinnar og sagði hana „óhóflega takmarkandi“.
„Heilbrigð skynsemi segir að afar og ömmur séu skilgreind sem nánir ættingjar. Raunar eru þau táknmynd náinna ættingja,“ skrifaði hann í dómnum.
Ríkin sex sem reglurnar ná til eru Íran, Líbía, Sýrland, Sómalía, Súdan og Jemen. Þá ná þær til allra flóttamanna. Hæstiréttur Bandaríkjanna er enn að meta hvort bannið í heild sinni standist lög og reglur í landinu, en rétturinn leyfði í síðasta mánuði tímabundið bann þar til hann kæmist að endanlegri niðurstöðu.
Trump hefur sagt að takmarkanirnar séu nauðsynlegar til að halda Bandaríkjunum öruggum og koma í veg fyrir hryðjuverkaárásir.