Áströlsk kona var á laugardag skotin til bana af lögreglumanni í Minneapolis í Bandaríkjunum. Hafði hún hringt á lögreglu til að tilkynna um mikil læti nálægt heimili sínu, en þegar lögreglumenn mættu á vettvang var hún skotin af einum þeirra.
Konan hét Justine Damond, en hún var 40 ára gömul og frá Ástralíu. Damond bjó í Minneapolis með unnusta sínum. Hún hafði hringt á lögreglu til að tilkynna um læti nálægt heimili sínu.
Þegar lögregla kom á vettvang gekk Damond á náttfötunum að lögreglubíl og spjallaði um stund við ökumanninn. Lögreglumaður sem sat í farþegasætinu dró skyndilega upp byssu og skaut Damond í gegnum glugga.
Ekki var kveikt á upptökuvélum lögreglumanna á staðnum, sem staðsettar eru á búningum þeirra, þegar atvikið átti sér stað.
Stjúpsonur konunnar birti myndband á Facebook þar sem hann krafðist svara. „Mamma mín er látin vegna þess að lögreglumaður skaut hana af ástæðum sem ég skil ekki.“ Myndbandið má sjá hér að neðan.
Damond hugðist giftast unnusta sínum í ágúst.