Lögreglan í Sádi-Arabíu hefur yfirheyrt konu sem sást á myndbandi sem birt var á netinu klæðast míní-pilsi og stuttum bol. Á myndskeiðinu mátti sá konuna á gangi um sögulegar minjar í hinu íhaldssama konungdæmi.
Myndböndin voru reyndar nokkur og tóku að birtast á samfélagsmiðlinum Snapchat um helgina. Sá sem birti myndböndin kallaði sig „Khulood fyrirsæta“.
Konan sést ganga um virki í Ushaiqer, skammt frá höfuðborginni Riyadh. Þá sést hún leika sér í sandinum og sjá má vel framan í hana.
Myndböndin voru svo endurbirt á YouTube og margir hafa deilt þeim á öðrum samfélagsmiðlum.
Þetta fannst mörgum mikill ósómi og var haft samband við lögregluna. Í fjölmiðlum í Sádi-Arabíu er svo haft eftir henni að konan hafi verið yfirheyrð og að hún hafi játað að hafa verið við virkið ásamt karlkyns fylgdarmanni.
Samkvæmt ströngum reglum Sádi-Arabíu verða konur að hafa meðferðis skriflegt leyfi karlkyns ættingja, oftast föður, eiginmanns eða bróður, svo þær megi stunda nám, vinna eða ferðast.
Konan segist ekki hafa sett myndböndin á netið og að hún hafi ekki heldur sett þau á Snapchat.
Málinu hefur nú verið vísað til ríkissaksóknara sem mun taka ákvörðun um hvort að konan verði sótt til saka.
Borgaryfirvöld í Riyadh sendu frá sér minnisblað í gær þar sem fram kom að lögreglan væri að leita að konu sem hefði sést „ósæmilega“ til fara á gangi.
Samkvæmt lögum í Sádi-Arabíu verða konur að klæðast svörtum, síðum kuflum og hylja hár sitt á almannafæri. Mikil umræða hefur nú skapast innan landsins sem utan um löggjöfina.