Bandarískur unnusti ástralskrar konu sem lögreglan Minneapolis skaut til bana á laugardag segist engin svör enn hafa fengið um tildrög skotárásarinnar. Justine Damond hafi hringt á neyðarlínuna og tilkynnt um mögulega kynferðislega árás í hverfinu sem parið bjó í. Lögreglan mætti á vettvang og segir unnustinn, Don Damond, að lögreglumaður hafi þá skotið unnustu sína til bana.
Hann segist í öngum sínum og krefjast svara. Slökkt var á myndbandsupptökuvélum sem lögreglumennirnir báru á sér. Atvikið átti sér stað í rólegu hverfi þar sem glæpir eru fágætir.
Damond hélt blaðamannafund fyrir utan heimili sitt í gærkvöldi og sagðist vera eyðilagður vegna fráfalls unnustunnar en þau ætluðu að gifta sig bráðlega. „Eins og þið vitið þá hringdi Justine í 911 á laugardagskvöldið og tilkynnti um það sem hún taldi vera kynferðislega árás í nágrenninu,“ sagði Damond á blaðamannafundinum. „Því miður höfum ég og fjölskylda hennar fengið nánast engar upplýsingar frá lögregluyfirvöldum um hvað gerðist er lögreglan mætti á svæðið.“
Justine Damond var fertug og bjó í Minneapolis ásamt unnusta sínum.
Dagblaðið Minneapolis Star-Tribune hefur eftir þremur heimildarmönnum að Justine hafi verið á náttfötum er lögreglan kom á vettvang. Hún hafi gengið að bílstjórahurð lögreglubílsins og ætlað að tala við lögreglumennina. Sá lögreglumaður sem sat í farþegasætinu greip þá byssuna sína og skaut hana. Lögmaður lögreglumannsins staðfestir að hann hafi skotið konuna til bana.
Rannsóknarstofnun sem fer með rannsókn málsins er nú að kanna hvort að einhver myndbandsupptaka finnist af árásinni. Lögreglustjórinn í Minneapolis segir atvikið „hörmulegt“ og að hann hafi beðið um að rannsóknin á tildrögum þess verði ítarleg.
Lögreglumennirnir tveir sem fóru í útkallið hafa verið leystir tímabundið frá störfum á meðan málið er til rannsóknar.
Betsy Hodges, borgarstjóri Minneapolis, segir málið hafa haft mikil áhrif á sig. Hún segist vilja svör við sömu spurningum og aðrir, t.d. af hverju slökkt af verið á myndavélum sem lögreglumennirnir báru.
Justine Damond kenndi hugleiðslu og jóga í Minneapolis. Hún var í dýralæknanámi áður en hún flutti til Bandaríkjanna þar sem hún bjó í þrjú ár.