Stakk af til að giftast vígamanni

Stúlkan er föl og ræfilsleg á myndum.
Stúlkan er föl og ræfilsleg á myndum. Skjáskot

Linda Wenzel, sextán ára gömul þýsk stúlka sem handtekin var í Mósúl á dögunum, snerist yfir til íslamstrúar eftir að hafa komist í kynni við hryðjuverkasamtökin á netinu. Er hún sögð hafa orðið ástfangin af vígamanni, og því hafi hún stungið af frá heimili sínu í bænum Pulsnitz síðasta sumar til að halda til Tyrklands.

Fjallað er um málið á vef breska dagblaðsins Telegraph.

Stúlkan var handtekin ásamt tuttugu öðrum konum í jarðgöngum undir gamla bænum í Mósúl á fimmtudag eftir að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams misstu borgina úr höndum sér. Á myndum sem deilt hefur verið á samfélagsmiðla síðustu daga má sjá stúlkuna í fylgd meðlima íraska stjórnarhersins, en herinn og bandamenn hans lýstu yfir sigri í Mósúl í síðustu viku. Á myndunum er stúlkan föl og ræfilsleg, en ber litríkan klút um hálsinn.

Tilkynnt var um hvarf Wenzel fyrir ári síðan, en hún hafði búið með móður sinni og stjúpföður í litla bænum Pulsnitz. Ólst hún upp á kristnu heimili, en sýndi ekki áhuga á trú þar til nokkrum mánuðum fyrir hvarfið. Þá sagði hún foreldrum sínum að hún hefði áhuga á íslamstrú.

Vinir hennar frá heimabænum segja hana hafa snúist yfir til íslamstrúar um þetta leyti eftir að haft hafði verið samband við hana í gegnum spjallrásir. Í kjölfarið fór hún að læra arabísku, taka kóraninn með sér í skólann, ganga í íhaldssömum klæðnaði og verða mjög áhugasöm um íslamstrú.

Telja hana hafa gifst vígamanni

Lögregla telur að hún hafi orðið ástfangin af múslímskum manni sem hún kynntist á netinu, og hann hafi sannfært hana um að flytja til Sýrlands til hans. Rétt fyrir hvarfið sagði hún foreldrum sínum að hún ætlaði að gista hjá vinkonu sinni yfir helgi. Hún kom hins vegar aldrei aftur.

Að sögn lögreglu ferðaðist hún til Istanbúl á skilríkjum móður sinnar og þaðan að landamærum Tyrklands og Sýrlands. Komst hún yfir landamærin með hjálp stuðningsmanna Ríkis íslam. Þeir komu henni svo til vígamanns hryðjuverkasamtakanna sem hún er sögð hafa gifst. Talið er að hún hafi komist til Mósúl áður en íraski stjórnarherinn og bandamenn hans lýstu yfir því að þeir myndu reyna að ná borginni aftur í október sl.

Wenzel hafði aldrei ferðast ein áður en hún flúði til Sýrlands.

„Ég er niðurbrotin yfir því að hún hafi verið heilaþvegin og sannfærð um að yfirgefa landið og að henni hafi tekist að fela það fyrir mér,“ sagði móðir stúlkunnar á síðasta ári. Þegar hún leitaði í herbergi dóttur sinnar eftir hvarfið fann hún bænamottu og tölvu með Facebook-aðgangi sem hún vissi ekki af. Á þeim aðgangi hafði dóttir hennar verið í sambandi við fólk í Mið-Austurlöndunum og sent þeim skilaboð á borð við: „Biðjum, endirinn er að nálgast“.

Sak­sókn­ari í Saxlandi í Þýskalandi skoðar nú málið.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert