Var 16 ára þýsk stúlka handtekin í Mósúl?

Írakar ganga um rústir vesturhluta Mósúlborgar. Íraksher lýsti yfir sigri …
Írakar ganga um rústir vesturhluta Mósúlborgar. Íraksher lýsti yfir sigri í baráttunni um borgina í síðustu viku. 5 konur eru sagðar hafa verið handteknar eftir að Mósúl féll og er verið að rannsaka tengsl þeirra við Ríki íslams. AFP

Saksóknari í Saxlandi í Þýskalandi kannar nú sannleiksgildi frétta af að 16 ára gömul þýsk táningsstúlka hafi verið í hópi þeirra sem handteknir voru í Mósúl eftir að hryðjuverkasamtökin Ríki íslams misstu borgina úr höndum sér. Hafa fréttir borist af því að stúlkan og fjórar aðrar konu hafi verið handteknar og sæti nú rannsókn vegna gruns um að vera stuðningsmenn Ríkis íslams.

Íraski stjórnarherinn og bandamenn þeirra lýstu yfir sigri í Mósúl í síðustu viku, þó enn komi til átaka milli hers og vígamanna í hlutum gömlu borgarinnar.

Þýska dagblaðið Die Welt segir konurnar fimm hafa verið handteknar í hernaðaraðgerð í borginni og nafngreindi þýsku stúlkuna sem Lindu W. Lorenz Haase, yfirsaksóknari Saxlands, segir yfirvöld nú rannsaka hvort um sé að ræða táningsstúlku sem hvarf að heiman úr bænum Pulsnitz síðasta sumar. Á þeim tíma rannsakaði lögregla meint tengsl hennar við Ríki íslams og hvort hún væri að taka þátt í undirbúningi hryðjuverks.

Haase sagði í samtali við Reuters að stúlkan hefði farið til Tyrklands fyrir um ári síðan og hefði ætlað sér að komast þaðan til Íraks eða Sýrlands, en að öryggislögregla hefði tapað slóð hennar þar.

Reuters hefur eftir heimildamanni innan þýska utanríkisráðuneytisins að unnið sé að því að afla upplýsinga um þjóðerni kvennanna fimm og að reynist einhver þeirra þýskur ríkisborgari þá verði henni boðin aðstoð ráðuneytisins.

20% konur og 5% börn

Yfirmaður í Íraksher kveðst hins vegar telja stúlkuna vera af slavneskum uppruna, mögulega rússneska. Farið var með hana á sjúkrahús vegna brunasára og er hún nú í haldi írösku öryggislögreglunnar.

Die Welt segir þýsku stúlkuna hafa snúist til íslamstrúar skömmu áður en hún hvarf og að hún hafi þá verið í sambandi við liðsmenn Ríki íslams í gegnum spjallrásir.

Innanlandsdeild þýsku leyniþjónustunnar áætlar að um 930 manns hafi farið frá Þýskalandi á undanförnum árum til að ganga til liðs við hryðjuverkasamtökin í Sýrlandi og Írak. Talið er að um 20% þeirra séu konur og 5% teljist enn á barnsaldri.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert