Herða refsiaðgerðir gegn Rússum

Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Donald Trump Bandaríkjaforseti takast í …
Vladimír Pútín, forseti Rússlands, og Donald Trump Bandaríkjaforseti takast í hendur á fundi þeirra á fundi G20-ríkjanna 7. júlí. AFP

Samkomulag hefur náðst á milli þingflokka repúblikana og demókrata í Bandaríkjunum um nýja löggjöf sem veitir stjórnvöldum auknar heimildir til að refsa Rússum fyrir meint afskipti af forsetakosningunum á síðasta ári.

Nýja löggjöfin takmarkar jafnframt heimildir Donald Trump Bandaríkjaforseta til að aflétta hvers kyns refsiaðgerðum sem bandarísk stjórnvöld hafa samþykkt að beita gegn yfirvöldum í Rússlandi. 

Þetta kemur fram á vef BBC.

Fram kemur, að Trump hafi áður látið þau ummæli falla að hann þurfi pólitískt ráðrúm til að eiga við rússnesk stjórnvöld. 

Frá því Trump settist í stól forseta í byrjun árs hafa ítrekað komið fram ásakanir um að Rússar hafi reynt að hafa áhrif á úrslit forsetakosninganna í fyrra. Stjórnvöld í Moskvu neita þessum ásökunum en bandarísk yfirvöld rannsaka nú hvort einhver sem tengdist framboði Trumps hafi starfað með rússneskum embættismönnum. 

Fréttaskýrendur segja að samkomulagið milli demókrata og repúblikana sýni fram á að Bandaríkjaþing sé staðráðið því að standa fast í lappirnar gagnvart Rússum, sama hvaða skoðanir Trump hafi á málinu.

Trump getur neitað að staðfesta lögin en ef hann myndi gera það þá myndi það auka enn á grunsemdir manna um að hann sé of hallur undir stjórnvöld í Rússlandi. Samþykki hann lögin væri að hann staðfesta lög sem ríkisstjórn hans er mótfallin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert