Stóru kortin tvö sýna hóruhús, næturklúbba og aðra skuggalega staði þar sem ungmenni gætu smitast af HIV-veirunni í bænum Guider í norðurhluta Afríkuríkisins Kamerún.
Útbreiðsla HIV er óvíða í heiminum hærri en í Kamerún, ríki með 23 milljónir íbúa.
„Kortið sýnir áhættusvæðin fyrir smit,“ segir Boris Mbaho Tchaptchet, hjá æskulýðsmiðstöð í Guider. „Við vorum búin að bera kennsl á ástarhótelin, myndbandsklúbbana, kabarettstaðina og neðanjarðarfundarstaðina áður en við hófum herferð okkar.“
Æskulýðsklúbburinn í Guider er eitt þeirra verkefna sem njóta stuðnings UNICEF, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, við að binda endi á HIV-smit meðal ungmenna.
Samkvæmt opinberum tölum eru 79.771 ungmenni og barn í Kamerún smituð af HIV-veirunni, en sérfræðingar segja raunverulegar tölur vera miklu hærri.
„Þessi vettvangur sameinar öll inngrip fyrir ungt fólk í baráttunni gegn HIV-smiti í landinu,“ segir Jules Ngwa Edielle, sem sér um HIV-verkefni æskulýðs- og menntamálaráðuneytisins. Þeirra hlutverk er að reyna að fá sveitarstjórnir landsins og trúarfélög með sér í baráttuna.
Bouba Saliou er eitt þeirra ungmenna sem hefur hlotið þjálfun í jafningjafræðslu í Guider. „Mitt hlutverk er að ræða við annað ungt fólk, spyrja það spurning og fá það til að skilja stöðuna og hvetja til að fara í eyðnipróf,“ sagði Saliou.
HIV er þó ekki auðvelt umræðuefni. „Margir bregðast við með því að segja: Heldurðu að ég sé veikur? Hefurðu yfirhöfuð séð mig eiga í kynferðissambandi?“ útskýrir Saliou.
„Aðrir neita einfaldlega og segjast vera öruggir um sína stöðu, en ég reyni samt að sannfæra þá.“
Hann nefnir sem dæmi 17 ára dreng sem komst að því fyrir hans tilstilli að hann var HIV-smitaður. „Hann varð mjög reiður út í mig þegar hann fékk fréttirnar,“ rifjar hann upp. „En við tölum oft saman í dag og hann segir mér að hann fylgi læknismeðferð sinni.“
Með þessari samfélagslegu nálgun vonast stjórnendur herferðarinnar til að ná þeim árangri að 90% HIV-smitaðra viti af smitinu, að 90% þeirra séu i lyfjameðferð og að í 90% þeirra tilfella takist að bæla veiruna.
Til lengri tíma þá vonast menn til að þeim takist að eyða HIV-smiti í landinu fyrir árið 2030.
Therese Nduwimana, sem rekur HIV-meðferðareiningu UNICEF í Kamerún, segir verkefnið þegar hafa skilað góðum árangri. „Á örfáum mánuðum hefur tekist að fjórfalda fjölda greindra barna,“ segir hún.
Skortur á heilbrigðisstarfsfólki er þó viðvarandi vandamál og má nefna sem dæmi að á sjúkrahúsinu í Garoua, sem á að sinna 2,7 milljónum manna, starfar aðeins einn kvensjúkdómalæknir og einn barnalæknir.
Hópur um 30 kvenna bíður fyrir framan heilsugæslustöðina eftir því að fá eyðnipróf. Niðurstöðurnar fá þær svo gott sem samstundis.
„Sjálfboðaliðar okkar hafa gengið á milli húsa til að hvetja hverja einustu óléttu konu að láta prófa sig,“ segir Odette Etame, sem er verkefnisstjóri Nolfowop-verkefnisins. Aðrar konur hafa síðan tekið að sér hlutverk leiðbeinenda og fylgja þeim konum og börnum sem greinst hafa með veiruna á sjúkrahús til að tryggja að þau fái meðferð.
5,75% barnshafandi kvenna í Kamerún voru HIV-smitaðar á síðasta ári og er Kamerún eitt þeirra 10 ríkja í heiminum sem ber ábyrgð á 75% allra ungbarnasmittilfella.