Mannkynið gæti verið í hættu vegna ófrjósemi ef fram heldur sem horfir og framleiðsla sáðfrumna heldur áfram að minnka jafnt og þétt. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem nær til tæplega 200 rannsókna á árabilinu 1973 til 2011 á sæði karlmanna frá Norður-Ameríku, Evrópu, Ástralíu og Nýja-Sjálandi. Hún sýnir að á síðustu 40 árum hefur dregið úr sæðisframleiðslu. BBC greinir frá.
„Við erum mjög áhyggjufull,“ segir Dr. Hagai Levine, forsvarsmaður rannsóknarinnar og farsóttarfræðingur. Hann sagði jafnframt að ef þróunin heldur svona áfram muni mannkynið deyja út.
„Ef við breytum ekki lifnaðarháttum okkar og umhverfinu sem við búum í eins og til dæmis öllum efnunum sem við notum er ég hræddur um framtíð mannkynsins,“ segir Levine.
Hins vegar eru ekki allir fræðimenn sammála þessum ályktunum rannsóknarinnar og segja of snemmt að segja til um afleiðingar þessarar þróunar.