Talið er mögulegt að Stefan Löfven, forsætisráðherra Svíþjóðar, muni segja af sér ásamt ríkisstjórn sinni í kjölfar þess að stjórnarandstaðan lagði fram vantrauststillögu gegn þremur ráðherrum stjórnarinnar vegna upplýsingaleka.
Ríkisstjórnin hefur boðað til blaðamannafundar í fyrramálið, en fyrr í dag funduðu ráðherrar í stjórnarráðinu fyrir luktum dyrum. Sænska ríkisútvarpið SVT segir Löfven eiga fáa kosti í stöðunni, annaðhvort boði hann til nýrra kosninga, eða þá víki hann ráðherrum sínum úr embætti.
Stjórnarandstaðan lýsti fyrr í dag yfir vantrausti á þau Peter Hultqvist varnarmálaráðherra, Anders Ygemann innanríkisráðherra og Önnu Johansson, ráðherra innviða, eftir að í ljós kom að Samgöngustofa Svíþjóðar, sem heyrir undir innviðaráðuneytið, hafði lekið persónuupplýsingum og hernaðarleyndarmálum til erlendra verktaka.
Það eru þó viðbrögð ríkisstjórnarinnar við lekanum, frekar en lekinn sjálfur, sem vakið hafa gagnrýnina, en fjölda ráðherra var kunnugt um hann án þess að aðhafast neitt.